Gefum okkur tíma fyrir hvern og einn
Fjölbreytt og óeigingjart starf unnið hjá Fjölskylduhjálp Íslands á Suðurnesjum.
Fjölskylduhjálp Íslands hefur verið starfandi á Suðurnesjum í fimm ár. Anna Valdís Jónsdóttir, verkefnisstjóri útibúsins í Reykjanesbæ, segir 300 fjölskyldur leita til þeirra á mánuði og fyrir síðustu jól hafi 1200 fjölskyldur þurft á aðstoð þeirra að halda. Nytjamarkaður er rekinn á þeirra vegum við Baldursgötuna þar sem kennir ýmissa grasa.
Sjálfboðaliðar sjá um flokkun og pökkun.
„Við gátum ekki veitt öllum hjálp í fyrra því fjöldinn hefur aukist ár frá ári og mikið undanfarna þrjá mánuði. Fyrir utan það voru einnig margir sem ekki vissu af okkur. Við erum orðin sýnilegri á Baldursgötunni,“ segir Anna Valdís. Það hafi farið í taugarnar á einhverjum sem búi nálægt hjálparstöðinni eða aki um svæðið að stundum myndist biðraðir fyrir utan. „Þetta er bara hvorki einkamál þeirra sem hingað koma né okkar að þetta skuli vera til. Fátækt er raunveruleiki.“ Spurð um hvað fólkinu í röðinni finnist um að vera svona sýnilegt, þá segir Anna Valdís að því sé sagt að allir glími við einhvers konar vandamál og engin skömm sé að því að leita sér aðstoðar þegar þörfin sé brýn.
Þrjár kynslóðir
„Þetta fólk er kannski búið að vera atvinnulaust í einhver ár og börn þeirra sem komin eru yfir unglingsár hafa flosnað úr skóla og eru líka atvinnulaus. Stundum koma þrjár kynslóðir til okkar. Okkur finnst þó hræðilegast af öllu að gamla fólkið skuli þurfa að koma hingað. Fólkið sem átti að eiga áhyggjulaust ævikvöld. Sérstaklega koma hingað margir einstæðingar fyrir jólin.“ Sem betur sé þó einstæðingum boðið í jólaúttekt hjá kirkjunni á vegum velferðarsjóðs, en þeir hafa hingað til leitað til Fjölskylduhjálparinnar vegna þess að þeir fengu ekki úthlutað frá kirkjunni. Þeir séu yfirleitt atvinnulausir, á örorkubótum eða ellilífeyri. „Starfið verður líklega miklu erfiðara fyrir þessi jól en áður. Fjölskyldurnar sem koma hingað eru íslenskar og alls ekki allt fólk sem er á bótum. Þetta er fólk sem einfaldlega nær ekki endum saman,“ segir Anna Valdís.
Húsnæðið að springa utan af þeim
Auk þess að vera með mataraðstoð gengur starfsemi Fjölskylduhjálparinnar út á að reka nytjamarkað þar sem seldur ýmis konar varningur, s.s. fatnaður á börn og fullorðna, gjafavörur, ýmsar nytjavörur mikið úrval af jólaskrauti. „Hingað kemur margt fólk að til að versla. Við vorum áður á Hafnargötunni og í Grófinni. Fórum úr 100 fermetrum í 350 en samt er allt að springa utan af okkur. Lengi vel héldu margir að vörurnar á nytjamarkaðnum væru bara fyrir skjólstæðinga okkar. Þetta er fyrir alla og allt rennur óskipt í sjóð matarhjálparinnar,“ segir Anna Valdís.
Ekkert til spillis
Yfirleitt starfa um ellefu sjálfboðaliðar hjá útibúinu í Reykjanesbæ, en það er eitt fjögurra á landinu. Hin eru í Reykjavík, Hafnarfirði og í Kópavogi. „Við útbúum gjafapakkningar fyrir allar stöðvarnar sem eru svo seldar. Við vinnum ekki bara fyrir okkar starfsemi hérna heldur á ég vinkonu í Kópavogi og til hennar fer það sem við getum ekki nýtt hérna. Hún pakkar ungbarnafatnaði til Hvíta Rússlands og fleiri staða. Samvinna er með Rauða krossinum þannig að ekkert fer til spillis. Það sem við getum ekki nýtt fer í tæting þar. Við höfum fengið hingað samkvæmiskjóla sem við höfum ekki selt og höfum hér á svæðinu saumakonu sem býr til telpukjóla og drengjaskyrtur úr sparifatnaði. Hér er unnið mjög gott og óeigingjarnt starf.“
Einn sjálfboðaliðanna í nytjamarkaðnum.
Þurfa að vera góðir áheyrendur
Eins og áður hefur komið fram fer matarúthlutunin fram í húsnæði Fjökskylduhjálparinnar við Baldursgötu. „Fólkið skráir sig í tölvu og síðan er afgreitt við borðið. Mikið og fjölbreytt starf er unnið hér í sjálfboðavinnu. Hér ríkir góður andi og starfsfólk er glatt þrátt fyrir erfiðleikana sem horft er upp á. Einnig eru margir sem vilja koma og gerast sjálfboðaliðar, þ.á.m. fólk sem hefur verið í röðinni eftir matarúthlutun. Svo eru aðrir sem vilja bara droppa við og fá sér kaffisopa og spjalla aðeins. Þetta er því félagsleg stöð líka. Við þurfum að vera góðir áheyrendur og gefa okkur tíma til að hlusta á hvern og einn. Með því bætum við kannski dag einhvers,“ segir Anna Valdís að endingu og hvetur Suðurnesjafólk til að líta við í nytjamarkaðnum.
VF/Olga Björt