Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Gefandi að sjá fólk fá trú á sjálfu sér
    Nemendur í Grunnskóla í Grindavíkur og Þorvaldur Daníelsson, hjólreiðaþjálfari, eftir hressandi morgunæfingu.
  • Gefandi að sjá fólk fá trú á sjálfu sér
    Katla Sif Gylfadóttir, hjólreiðagarpur úr 9. bekk.
Laugardagur 17. október 2015 kl. 07:00

Gefandi að sjá fólk fá trú á sjálfu sér

Unglingar úr Grindavík hjóluðu hringinn í kringum Ísland

„Eftir að ég byrjaði að hjóla svona mikið hef ég meira sjálfstraust og er síður hrædd við að taka áhættu. Ég finn líka mun á líkamlegu formi,“ segir Katla Sif Gylfadóttir, hjólreiðagarpur og nemandi í 9. bekk í Grunnskóla Grindavíkur. Hún tekur þátt í verkefninu Hjólakraftur en það hófst í Grindavík í byrjun mars og var þá hjólaklúbbur á vegum félagsmiðstöðvarinnar Þrumunnar í samstarfi við grunnskólann. Verkefnið stóð í þrjá mánuði, frá mars og fram í júní og vakti mikla lukku. Krakkarnir í Hjólakrafti tóku meðal annars þátt í Hjólreiðakeppni Bláa Lónsins og í Wow Cyclothon þar sem þau hjóluðu hringinn í kringum landið, hvorki meira né minna. Í haust var gerð sú breyting að Hjólakraftur er hluti af valnámskeiðum á unglingastigi Grunnskóla Grindavíkur.

Katla ákvað að skrá sig í Hjólakraft eftir að hafa séð kynningu frá þjálfara. „Hann sýndi okkur myndband um hjólreiðar og kynnti verkefnið fyrir okkur og ég ákvað að skrá mig. Við vorum fjörutíu sem skráðum okkur en aðeins tíu sem komumst að og ég var svo heppin að vera ein af þeim.“ Aðspurð hvort þau hafi þurft að eiga mikið að hjólagræjum í byrjun segir Katla svo ekki hafa verið. „Við vorum bara í venjulegum fötum til að byrja með og þau okkar sem ekki áttu hjól fengu þau lánuð hjá þjálfaranum. Nýlega fengum við svo ljós á hjólin því við hjólum stundum snemma á morgnana.”

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hópsneshringurinn skemmtilegastur

Katla hafði ekki hjólað mikið áður og segir æfingarnar hafa verið dálítið erfiðar í fyrstu. „Þá var ég ekki viss um það hvort ég ætlaði að halda áfram en svo komu framfarirnar fljótt.“ Hópsneshringurinn er í uppáhaldi hjá Kötlu en hann liggur austur fyrir Grindavík. „Það sem er svo skemmtilegt við æfingar er að við vitum yfirleitt aldrei fyrirfram hvert við ætlum að hjóla. Mér finnst mjög gaman að hjóla í náttúrunni með krökkum sem ég þekki.“

Þegar hópurinn tók þátt í Bláalónsþrautinni í sumar, þar sem hjóluð var 60 km löng leið, var Katla með flensu og gat því ekki tekið þátt eins og hún hafði stefnt að. „Wow Cyclothon fór fram stuttu síðar og eftir veikindin var ég því ennþá spenntari að vera með í því.“ Wow Cyclothon var mikið ævintýri fyrir krakkana í Hjólakrafti og stefnir Katla að því að vera aftur með á næsta ári. Aðspurð að því hvort það hafi ekki tekið á að hjóla hringinn í kringum landið segir Katla að á tímabili hafi hún óttast að komast ekki alla leið. „Þetta var mjög gaman og ég var svolítið stressuð en svo bara hélt ég áfram og komst alla leið.“ Liðið skiptist á að hjóla og hver fékk fjögurra klukkutíma hvíld á milli þess sem hjólað var. Það tók liðið þrjá sólarhringa að hjóla hringinn í kringum landið. En hvernig gekk að ná svefni í bílnum á milli spretta? „Við sváfum nú ekki mikið, það voru svolítil læti í bílnum.“


Grindvíkingar í góðum gír

Hjólagarpurinn Þorvaldur Daníelsson hefur umsjón með verkefni Hjólakrafts í Grindavík. Þorvaldur býr í Reykjavík en kemur til Grindavíkur tvisvar sinnum í viku á hjólaæfingar. Hann segir það hafa komið sér skemmtilega á óvart hversu duglegir Grindvíkingar eru að stunda útivist og hreyfingu. „Það er svo margt gott í gangi í þessum bæ. Áður heyrði ég stundum talað um Grindavík sem eineltis- og vandræðabæ en ég upplifi það sterkt að fólkið þar er búið að rétta úr bakinu og setja kassann fram. Það eru allir að fara út að hjóla og hlaupa eða að synda í sjónum og Hjólakraftur er einn anginn af því. Fólkið í bænum er að detta í góðan gír sem ég myndi vilja sjá víðar,“ segir Þorvaldur.

Hjólakraftur er einnig með námskeið í Reykjavík og á næstunni byrja æfingar í Árborg. Þorvaldur á núna í viðræðum við tvö önnur sveitarfélög um að hefja æfingar á næstunni svo ljóst er að eftirspurn eftir Hjólakrafti er mikil. En hvað gefur hjólreiðaþjálfunin Þorvaldi? „Ég fæ útiveru, hreyfingu og félagsskap og að kynnast fólki. Í starfinu með Hjólakrafti kynnist ég ekki aðeins krökkunum heldur foreldrunum líka. Það næst alltaf besti árangurinn þegar fjölskyldurnar taka þátt með einhverjum hætti. Mér finnst alltaf mjög gefandi þegar ég sé að það kviknar á ljósinu hjá fólki og það hugsar með sér: „Já, ég get þetta!“ Það finnst mér alveg rosalega skemmtilegt.“

Byggir þjálfunina ekki á neinum kenningum

Fjögur tíu manna lið á vegum Hjólakrafts tóku þátt í WOW Cyclothon síðasta sumar. Af þeim voru 25 unglingar. Liðin voru blönduð og í þeim voru hjólreiðagarpar frá Grindavík, Árborg, Seltjarnarnesi, Hafnarfirði, Reykjavík og fjölskylda frá Akureyri. „Ég ætla ekki að segja að þetta hafi verið landsliðið en hjólreiðafólkið kom víða að,“ segir Þorvaldur í léttum dúr. Meðal þeirra sem hjóluðu WOW Cyclothon með Hjólakrafti í sumar voru fimm börn á einhverfurófi. „Með okkur í hópnum var einvalalið úr ýmsum áttum sem hélt vel utan um hópinn. Þetta voru ekkert endilega bestu hjólamenn á landinu en þau skora öll gríðarlega hátt í mælingum á færni í mannlegum samskiptum.“

Aðspurður um hugmyndafræðina að baki Hjólakrafti segir Þorvaldur hana í rauninni ekki svo mikla, eiginlega sé hún engin. „Ég byggi þjálfunina ekki á neinum kenningum eða fræðibókum heldur nýti ég mér einfaldlega það sem ég hef sjálfur fundið, séð og upplifað. Þetta snýst um að þegar maður kemst af stað upp úr einhverjum hjólförum, þá sér maður heiminn frá öðru sjónarhorni. Til dæmis bara með því að hjóla ferða sinna í staðinn fyrir að keyra. Á þann hátt upplifir maður aðra hluti og skynjar sjálfan sig og umhverfið á annan hátt. Það getur oft fært fólki trú á að það geti meira en það hefur hingað til talið. Það má því segja að markmiðið með Hjólakrafti sé að koma fólki af stað upp úr hjólförunum og ná því frá vanvirkni til virkni.“ Allir eru velkomnir á æfingar hjá Hjólakrafti og meðal þeirra sem æfa eru einnig börn og unglingar sem æfa aðrar íþróttir.

Þorvaldur Daníelsson, þjálfari hjá Hjólakrafti.