Garðar Jökulsson sýnir í Saltfisksetrinu
Á morgun, laugardaginn 4. apríl opnar Garðar Jökulsson málverkasýningu í listsýningasal Saltfisksetursins í Grindavík. Opnunin verður frá kl.14 - 18 og eru allir velkomnir. Sýningin mun standa fram til 4. maí og er opin alla daga frá kl.11-18.
Garðar er fæddur árið 1935 í Reykjavík og hefur alla tíð búið á höfuðborgarsvæðinu. Áhugi hans á myndlist sér í lagi landslagsmálverkinu, vaknaði snemma og hefur hann sótt flestar myndlistarsýningar og fylgst með þróun myndlistar frá því í kringum 1950 eða í ríflega hálfa öld. Ekki eru þó nema rúm tuttugu ár síðan hann fór sjálfur að mála í frístundum og er sjálfmenntaður í þeim fræðum. Garðar sækir efnivið í landslag og náttúru Íslands.
Frá árinu 1995 má segja að Garðar hafi helgað sig málverkinu og hefur hann haldið fjölda sýninga frá þeim tíma og tekið þátt í samsýningum.