Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Garðamenning í Reykjanesbæ - Sjáið allar myndirnar!
Hópurinn sem tók við viðurkenningum fyrir garða og umhverfi á Ljósanótt. Ljósmynd: Hilmar Bragi
Föstudagur 11. september 2015 kl. 12:00

Garðamenning í Reykjanesbæ - Sjáið allar myndirnar!

– Umhverfisviðurkenningar Reykjanesbæjar 2015

Umhverfisviðurkenningar Reykjanesbæjar voru veittar í ráðhúsi bæjarins á Ljósanótt. Margar góðar tilnefningar bárust eftir að óskað var eftir ábendingum um fallega garða, fallega endurbyggingu á gömlum húsum og lóðum hjá einstaklingum og fyrirtækjum.

Garðamenning á sér ekki langa sögu og stutt er síðan garðar voru flestir einungis grasbali og kannski fáein tré. Nokkur hugarfarsbreyting varð hjá fólki fyrir nokkrum árum síðan og garðeigendur sýndu dirfsku, að sögn Berglindar Ásgeirsdóttur garðyrkjufræðings hjá Reykjanesbæ.

„Bjartsýnir menn og konur fóru að planta trjám og móta garðana sína þegar kom í ljós að margar plöntur uxu bara vel. Samfara myndaðist skjól í heimilisgörðum og við uppgötvuðum að hægt er að vera úti í garði sér til yndisauka, borða saman og hafa það huggulegt,“ segir Berglind og þar með hafi garðamenning orðið til og hjá mörgum sé þetta hreinlega lífsstíll,  útilífsstíll. „Nú má sjá fallega skjólgóða garða, palla og svalir víðsvegar, útistofur með húsgögnum, grillum, trjám, blómum og skrautmunum“.

Fjölmargar viðurkenningar









Norðurgarður fékk viðurkenningu í ár fyrir fallega götumynd þar sem nágrannar hjálpast að og eru samfélaginu góð fyrirmynd.





Veitingahúsið Ráin fékk viðurkenningu sem fyrirtæki til fyrirmyndar í umhirðu á nánasta umhverfi.










Borgarvegur 1 fékk viðurkenningu fyrir snyrtilegt umhverfi og starf í þágu bæjarbúa við götubeðin á Borgarvegi. Það voru þau Erla Hildur Jónsdóttir og Jónas Jóhannesson sem tóku við viðurkenningunni.









Brekkustígur 31f fékk viðurkenningu fyrir snyrtilegt umhverfi og starf í þágu bæjarbúa við gróðursetningu í steinamön. Það var Snævar Vagnsson sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd íbúa.





Hafnargata 69 fékk viðurkenningu fyrir sérlega fallegan miðbæjargarð. Það voru Vilborg Jóhannesdóttir og Benoný Haraldsson sem tóku við viðurkenningunni.











Ránarvellir 2 fengu viðurkenningu fyrir fallegan garð og að íbúar væru til fyrirmyndar fyrir umhirðu í garði og nánsta umhverfi. Það voru þau Þórunn Halldórsdóttir og Axel Jónsson sem tóku við viðurkenningunni.









Heiðarhorn 1 fékk viðurkenningu fyrir fallegan og vel hirtan garð sem er alltaf til fyrirmyndar. Það var Björn H. Jónsson sem tók á móti viðurkenningunni.









Þá fékk Aðalgata 17 viðurkenningu fyrir ævintýralegan garð og snyrtilegt umhverfi. Þau Katrín Jóna Hafsteinsdóttir og Þorsteinn Jónsson tóku við viðurkenningunni. Ljósmyndir: Oddgeir Karlsson

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024