Ganga yfir Ísland til styrktar Þrótti í Vogum
Á bak við hvert íþróttafélag býr fjöldi fólks sem vinnur hörðum höndum að uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsmála í sinni heimabyggð og leggur oft mikið á sig án þess að ætlast til þess að fá nokkuð í staðinn.
Tveir ungir menn í Vogum, þeir Hilmar Egill Sveinbjörnsson og Gunnar Júlíus Helgason, hafa nú tekið höndum saman og ákveðið að ganga þvert yfir Ísland, lengstu leið sem hægt er, frá Fonti á Langanesi að Reykjanestá. Það gera þeir til styrktar Ungmennafélaginu Þrótti í Vogum, en mikil uppbygging á aðstöðu stendur nú þar fyrir dyrum samfara mikilli fólksfjölgun í sveitarfélaginu.
„Við erum náttúrulega báðir uppaldir í starfi Þróttar og eigum börn í bænum sem eiga eftir að taka þátt í starfinu á næstu árum,“ sagði Hilmar í samtali við Víkurfréttir. „Hér er mikið að gerast hjá krökkunum og það á bara eftir að aukast í framtíðinni.“
Garparnir leggja í hann á föstudag þegar þeir fljúga norður og halda strax af stað. Þeir munu hafa með sér rúm 20 kíló af farangri fyrir þessa 550 km löngu leið, en þeir áætla að vera um 3 vikur á leiðinni.
Á meðan ferðinni stendur geta áhugasamir heitið á þá með því að senda póst á [email protected], skrá sig á áheitablöð í verslunum eða leggja styrk inn á reikning Þróttar í Vogum sem er 1109-26-4498 og kennitalan er 640289-2529.
Þeir félagar hafa ekki lagt áður í slíka langferð en Hilmar sagði að þeir væru búnir að skipuleggja sig vel. „Við erum búnir að kynna okkur leiðina og ræddum meðal annars við Steingrím J Sigfússon, sem gekk þessa leið sjálfur fyrir tveimur árum.“
Þeir munu ekki fá neina utanaðkomandi hjálp og fá engar utanaðkomandi vistir, en kvíða samt eki neinu. „Það eina sem gæti sett strik í reikininginn eru vatnsföllin. Það eru kannski einhverjar kvíslar uppi í Þjórsárverum sem gætu tafið fyrir okkur, en þær stöðva okkur ekki,“ bætti hann við.
Ferð sem þessi væri illframkvæmanleg ef ekki væri fyrri góða stuðningsaðila, en Lyf og Heilsa og Samkaup hafa stutt vel við bakið á þeim með sjúkragögn og Matvæli fyrir ferðina, og svo styrkir Flugfélag Íslands þá til að fljúga á milli og fyrirtækið Íslensku Alparnir með útivistarföt og annan búnað.
Mynd: Með börnunum sínum. Hilmar með Arnari Agli og Gunnar með Júlíu Halldóru. Þau eiga eflaust eftir að hvetja þá til dáða.