Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gamlir munir í bragga Ásgeirs
Föstudagur 10. mars 2017 kl. 06:00

Gamlir munir í bragga Ásgeirs

- 70 ára ný uppgerður bíll meðal muna á sýningu á Safnahelgi

Ásgeir Hjálmarsson kom Byggðasafninu í Garði á koppinn á sínum tíma. Eftir að hann lét af störfum hefur hann haldið áfram að safna munum í bragga í Útgarði. Nú um Safnahelgi verður bragginn opinn fyrir gesti og gangandi. „Ég veit nú ekki af hverju ég byrjaði að safna munum en eftir að ég hætti hjá Byggðasafninu hélt ég áfram að safna og er hérna kominn með annað safn í bragganum. Maður losnar ekkert við það að safna,“ segir Ásgeir.

Safnið er í tveimur samliggjandi húsum í Út-Garði. Áður fyrr þurrkaði Oddur Jónsson, afi Ásgeirs, fisk í og við húsin. „Hérna byrjaði ég að vinna ásamt fleiri krökkum, líklega sex til átta ára gamall.“ Það er því óhætt að segja að húsin eigi sér langa og skemmtilega sögu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á safni Ásgeirs kennir ýmissa grasa. Þar eru ýmis áhöld og tæki tengd búskap, heimilishaldi, bílum og bátum. Ásgeir er nýbúinn að gera upp sjötíu ára gamlan bíl sem eiginkona hans, Sigurjóna Guðnadóttir, vann í happdrætti þegar hún var þriggja ára. Bíllinn er af gerðinni Renault Juvaquatre og árgerð 1946. Bíllinn er glæsilegur að sjá eftir yfirhalningar síðustu missera. Nokkrir slíkir bílar voru fluttir til landsins á 5. áratug síðustu aldar. Þeir voru geymdir við bæinn Haga í Vesturbæ Reykjavíkur og hlutu því viðurnefnið Hagamýs. Bíll Sigurjónu var aftur á móti alltaf kallaður Tíkallinn því happdrættismiðinn kostaði tíu krónur.

Sýningin verður opin á laugardag og sunnudag á milli klukkan 12:00 og 17:00 og eru allir velkomnir. Húsin eru við Skagabraut 17, á horni Skagabrautar og Nýjalands.