Gamlir Fóstbræður með tónleika á Suðurnesjum
Karlakórinn Gamlir Fóstbræður heldur tónleika í Bíósal DUUS húsa laugardaginn 9. nóvember nk. kl. 14.00 og sama dag kl. 18.00 í Grindavíkurkirkju. Aðgangur á báða tónleikana er ókeypis. Stjórnandi kórsins er Árni Harðarson og einsöngvari með kórnum er Þorgeir Andrésson. Kórinn flytur fjölbreytta efnisskrá sem inniheldur að mestu þekkt karlakórslög.
Karlakórinn Gamlir Fóstbræður er skipaður félögum sem hættir eru að syngja með starfandi Fóstbræðrum en vilja halda við sönghefðinni og góðum félagsskap. Kórinn var stofnaður 1959 og hefur alla tíð staðið þétt að baki og við hlið starfandi Fóstbræðra og komið fram á öllum hátíðarstundum Fóstbræðra.
Það skal ítrekað að ókeypis aðgangur er á báða tónleikana og eru eldri borgarar boðnir sérstaklega velkomnir.