Gamaldags hátíðarstemning í messu á jóladag
Tónlistarkonan Elíza Newman Geirsdóttir flutti í Hafnir fyrir þremur árum og tók þá upp þá hátíðlegu hefð að fara alltaf með pabba sínum í messu í Kirkjuvogskirkju á jóladag. „Við sitjum á bekkjunum króknandi og það er mjög gamaldags og notalegt,“ segir hún. Pabbi Elízu, Geir Newman, ólst upp í Höfnum og í messunni hitta þau alltaf bróður hans og gamla vini. „Þetta er ný og skemmtileg hefð hjá mér en þær hafa breyst töluvert í gegnum enda er ég búin að flytja oft.“ Eftir messuna fara þau alltaf í kirkjugarðinn, heimsækja ættingja þar og kveikja ljós.
Vann að nýju sólóplötunni í þrjú ár
Elíza sendi á dögunum frá sér sólóplötuna Straumhvörf. Hún er ánægð með móttökurnar en lögin Fagurgalinn og Af sem áður var hafa hlotið góðar viðtökur og verið mikið leikin á útvarpsstöðvum. „Ég vona að fólk velji að kaupa diskinn og gefi hann jafnvel í jólagjöf. Svo er auðvitað hægt að nálgast lögin á Tónlist.is og Spotify.“ Tónlistin á plötunni er rokkuð popptónlist með „söngvaskálda-fílingi.“ „Það er mikið stuð á plötunni, úkúléle, flautur, fiðlur, gítar og trommur. Þá má eiginlega segja að ég láti allt flakka,“ segir Elíza en hún samdi öll lögin og textana á plötunni sem tekin var upp í Stereohóli í Höfnum.
Elíza vann að plötunni í þrjú ár með hléum. „Ég hef gefist upp og hætt við og breytt. Mest var unnið í sumar og var platan kláruð í haust. Ég ákvað í byrjun árs að klára plötuna á árinu og er mjög ánægð með að hafa lokið við hana.“ Aðspurð um titilinn segir Elíza hann hafa átt vel við þar sem lögin voru samin í Höfnum. Fyrir utan heimilið hennar ólgi sjórinn og því eigi nafnið vel við.
Útgáfu- og jólatónleikar verða haldnir í Kirkjuvogskirkju í Höfnum næsta sunnudag, 11. desember, og þar ætlar Elíza að leika nokkur lög af plötunni í bland við jólalög. Á tónleikunum verða kertaljós, kökur og kósíheit. Elíza ætlar líka að kynna plötuna í bókabúðum og víðar í desember. Eftir áramót kemur hljómsveitin hennar saman og fer í tónleikaferð.
Fiðlunámið ekki alltaf leikur einn
Elíza hóf tónlistarferilinn sex ára gömul í Tónlistarskólanum í Keflavík þegar hún byrjaði að læra á blokkflautu. Átta ára gömul hóf hún svo fiðlunám undir leiðsögn Kjartans Más Kjartanssonar sem nú er bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Hún segir fiðlunámið oft að hafa reynt á þolinmæðina. „Það var viss eldraun að ná tökum á fiðlunni. Hún er samt mjög góður grunnur og gefur manni fullkomið tóneyra.“ 16 ára gömul sigraði Elíza í Músíktilraunum með félögum sínum í hljómsveitinni Kolrössu krókríðandi og segir hún fiðluna hafa gefið sér sterka rödd á þeim tíma. Elíza fékk fiðlu 12 ára gömul og leikur enn á sama hljóðfærið og á nýju plötunni eru einmitt fiðlusóló og fiðluútsetningar.
Hér má sjá stiklu úr nýjasta þætti Suðurnesjamagasíns Sjónvarps Víkurfrétta