Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gaggandi hænur í félagsstarfi aldraðra
Hænan Summína verður í Sjónvarpi Víkurfrétta í kvöld. VF-myndir: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 2. október 2014 kl. 14:10

Gaggandi hænur í félagsstarfi aldraðra

– Yngstu og elstu borgarar bæjarins sameinast í hænsnarækt

Summína og Ronja eru tvö af þeim nöfnum sem hænurnar í félagsstarfi aldraðra í Reykjanesbæ fengu í vikunni. Pétur Þorsteinsson prestur í Óháða söfnuðinum tók þátt í athöfn þar sem leikskólabörn í Reykjanesbæ og eldri borgarar komu saman í þeim tilgangi að gefa hænunum nöfn.

Í sumar fengu eldri borgarar sem taka þátt í félagsstarfi í Selinu í Njarðvík þá hugmynd að ala hænur í hænsnakofa á lóðinni við félagsstarfið. Aðstaða fyrir fuglana var því útbúin í upphituðum kofa og fengnir voru nokkrir hænuungar í húsið.

Börnin á leikskólunum Hjallatúni og Gimli eiga í góðu samstarfi við eldri borgarana og heimsækja félagsstarfið reglulega. Það var því ákveðið að börnin myndu taka þátt í skemmtilegri athöfn þar sem hænunum yrðu gefin nöfn. Stóri dagurinn rann svo upp og var fjórum hænum gefið nafn í viðurvist prests.

Þá var einnig upplýst að í hænsnakofanum væri reyndar einn hani. Hann mun reyndar fá nýtt heimili áður en hænurnar byrja að verpa, því ekki er hugmyndin að fylla Njarðvík af gaggandi hænum vetur.

Eftir að hænurnar höfðu fengið sín nöfn var blásið til skírnarveislu þar sem boðið var upp á kökur og ávaxtasafa.

Innslag um gaggandi hænur í félagsstarfi aldraðra er í Sjónvarpi Víkurfrétta á ÍNN í kvöld kl. 21:30 og aftur kl. 23:30.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024