Gáfu afrakstur málverkauppboðs
Fulltrúar frá Félagi myndlistarmanna í Reykjanesbæ komu færandi hendi í Ragnarssel með 50 þúsund krónur í farteskinu til styrktar starfinu á Ragnarsseli. Féð safnaðist með málverkauppboði félagsins á síðustu Ljósanótt.
Sæunn Guðjónsdóttir, forstöðukona í Ragnarsseli, segir öll framlög koma sér afar vel fyrir starfið þar ekki síst í ljósi þess að með vaxandi fólksfjölda á svæðinu hafi eftirspurn eftir þjónustunni aukist verulega. Í dag eru 14 börn á Ragnarsseli og 8 starfsmenn.
„Við erum fyrir löngu búin að sprengja utan af okkur húsnæðið. Það er einnig orðið óhentugara t.d. með tilliti til þess fjölda hjálpartækja sem hér er verið að nota. Það er jafnframt að skapast þörf fyrir að deildarskipta starfseminni, sem við stefnum á að gera með vorinu þegar við fáum afnot af öllu húsinu . Það verður auðvitað mjög til bóta en svo þarf að hugsa þessi mál til framtíðar og ég veit að aðstandendur Þroskahjálpar eru að gera það af alvöru.“ sagði Sæunn.
Mynd: Fjölmargir velunnarar hafa stutt starf Þroskahjálpar í gegnum árin. Hér eru það Hermann Árnason og Ásmundur Friðriksson sem færðu Ragnarsseli 50 þúsund króna afrakstur af málverkauppboðinu á Ljósanótt.
Á myndinni eru í aftari röð Sæunn Guðjónsdóttir, Hermann og Ásmundur. Í fremri röð frá vinstri eru þær Díana Dröfn, Erna María, Sóley og Kara. VF-mynd: elg.