Gæti ekki hugsað mér að borða snáka og leðurblökur
Hermann Helgason er framkvæmdastjóri S4S ehf., bjartsýnismaður og mikill áhugamaður um pizzur.
– Líturðu björtum augum til sumarsins?
Já, hef þann kost að líta alltaf björtum augum á framtíðina.
– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?
Hef mikinn áhuga á fótbolta, körfubolta og mínu liði Keflavík, ástandið kom í veg fyrir að karlalið Keflavíkur í körfunni hafi unnið titilinn 2020, fótboltatímabilið sem ætti að fara hefjast þessa dagana hefur verið frestað til miðjan júní, leiðinlegt að komast ekki á völlinn. Golfið verður í góðu lagi og ætla ég að lækka forgjöfina í sumar.
– Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi og hver er ástæðan?
Fyrir utan Keflavík þá hef ég ekki fundið hann ennþá en Vestmannaeyjar eiga alltaf eitthvað í mér.
– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?
Spila golf, ferðast um landið finna uppáhaldsstaðinn á Íslandi.
– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?
Það voru plön um ferðir erlendis vegna vinnu og með fjölskyldunni til Tenerife sem ekkert varð af.
– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?
Hún hefur verið skrýtin, nánast ekkert farið uppí íþróttahús eða í sundlaugina sem var nánast daglegt brauð hjá mér en potturinn heima hefur bjargað sundferðunum (pottaferðunum) en ekkert komið í stað íþróttanna.
– Finnst þér fólk almennt virða reglur tengdar samkomubanni?
Já, flestir hlýði Víði.
– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?
Njóta augnabliksins, nýta tæknina meira til fjarfunda þurfum kannski ekki allar þessar ferðir innanlands og erlendis til funda. Opnunartími verslana mun styttast, held að það verði margt gott sem við munum gera öðruvísi þegar allt líður hjá.
– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?
Sími og Messenger ómissandi, er að nota Teams vinnutengt.
– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?
Ef þetta má vera ósk þá væri ég alveg til í að heyra í pabba, taka spjallið og fá nokkur góð ráð en þar sem hann er fallinn frá þá er það mamma alltaf gott að heyra í henni. Það líður stundum langt á milli símtala, ég þarf að bæta úr því.
– Ertu liðtækur í eldhúsinu?
Nei en er að reyna að koma mér upp sérkunnáttu í pizzagerð, er mikill áhugamaður um pizzur. Svo sér maður um grillið, það er nánast í eldhúsinu. Annars er eldhúsinu stjórnað af eiginkonunni, set í eina og eina uppþvottavél eftir matinn.
– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?
Pizzur. Síðasta var með pizzasósu, nautahakki, mexíkóosti, piparosti, sveppum, lauk, jalapeno, Doritos (svörtu), döðlum, pizzaosti og heitu pizzakryddi. Breyti samt oft uppskriftinni en alltaf með ákveðinn grunn, þessi á eftir að verða „best seller“ á pizzastaðnum okkar Kalla Finnboga í framtíðinni.
– Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Pizza og bixímatur með spældu eggi á lambalæri/-hrygg sunnudagsins.
– Hvað geturðu ekki hugsað þér að borða?
Snáka og leðurblökur.
– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?
Í síðustu viku bakaði Anna María, tólf ára dóttir, mín bananabrauð.
– Ef þú fengir 2000 krónur, hvað myndir þú kaupa í matinn?
Egg, avókadó, Lambhagasalt og túnfisk með chilli. Gæti boðið Gogga samstarfsmanni mínum í mat þetta svaklegt combó.