Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 17. október 2002 kl. 08:50

Fyrstu þríburarnir í Grindavík

Fyrir mánuði síðan komu þríburar í heiminn á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi og foreldrarnir Jón Ársæll Gíslason og Janja Lucic búa í Grindavík, en stelpurnar sem fæddust eru fyrstu þríburarnir í Grindavík. Fyrir eiga þau soninn Adam Lucic Jónsson sem er tveggja ára gamall. Meðganga þríburanna tók 37 vikur og segir Janja að hún hafi legið 6 síðustu vikurnar á sjúkrahúsi:“Meðgangan gekk mjög vel og fæðingin líka. Ég lá svo í viku á sjúkrahúsinu eftir fæðingu og er búin að vera heima með litlu krílin í 3 vikur," segir Janja um leið og hún sinnir einni stelpunni. Jón Ársæll er að vonum stoltur faðir enda sá móðir náttúra um frjósemina: “Það er talað um það á spítalanum að þetta sé með stærri þríburum sem fæðst hafa en þær voru 10, 11 og 11 1/2 merkur þegar þær fæddust." Janja segir að Adam taki litlu systrum sínum mjög vel: “Hann er eiginlega besti aðstoðarmaðurinn og passar mjög vel upp á þær. Hann lætur okkur vita þegar þær fara að gráta og hugsar vel um þær. Það hefur ekki ennþá örlað mikið á afbrýðisemi hjá honum en það á nú sjálfsagt eftir að koma."

Jón Ársæll segir að þau hafi fengið fréttirnar af því að Janja gengi með þríbura þegar hún var komin 5 mánuði á leið: “Auðvitað var þetta töluvert sjokk, en um leið alveg þvílík gleði." Það er mikið að gera hjá þeim hjónum, enda þrjú lítil kríli sem hugsa þarf um. Janja segir að stelpurnar séu allar mjög værar og sofi vel á milli þess sem þeim er gefið. Víkurfréttir óska hinum nýbökuðu foreldrum innilega til hamingju og án efa verður fylgst með þessum fallegu stelpum í framtíðinni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024