Fyrsti kossinn og eitís taktar
-Fimmtíu ára Hljómasaga á stóra sviðinu og tónleikar í Geimsteini á Ljósanótt
50 ár eru frá því hljómsveitin Hljómar frá Keflavík kom fyrst fram á sjónarsviðið. Af því tilefni verður boðið upp á dagskrá með tónlist Hljóma á stóra sviðinu á laugardagskvöld á Ljósanótt. Hljómar mörkuðu djúp spor í íslenska tónlistarsögu og hafa alltaf verið kenndir við uppruna sinn í Keflavík og því er tilhlýðilegt að heiðra hljómsveitina á heimavelli. Söngvararnir Eyþór Ingi, Valdimar Guðmundsson og Stefanía Svavars mun flytja lög þeirra ásamt sérvalinni hljómsveit sem Jón Ólafsson, bítlavinur stýrir. Sögumaður á tónleikunum er Baldur Guðmundsson sonur Rúnars Júlíussonar heitins.
Baldur segist hafa séð þarna dauðafæri á því að heiðra Hljóma við þessi merku tímamót þar sem hljómsveitin verði 50 ára í október næstkomandi. „Þetta er alveg kjörið þar sem tónlistin hefur verið í hávegum höfð á Ljósanótt. Stóra sprengjan varð þegar Hljómar frá Keflavík komu á sjónarsviðið og því er tilvalið að heiðra þá.“
Söngvarar í yngri kantinum sjá um að flytja lög Hljóma en Baldur segir í léttum tón að mikilvægt sé að enginn yngri en 50 ára komi að sýningunni. „Þarna erum við að kynna tónlistina fyrir yngra fólkinu og ýta undir fortíðarþrá hjá eldra fólkinu,“ segir Baldur sem ætlar sjálfur ekki að taka í hljóðfæri, nema þá í mesta lagi tambúrínu. Hann verður sögumaður á tónleikunum eins og áður segir en þar mun hann kynna lögin sem flutt verða og segja stuttar sögur á bak við lögin. Hann segist vera mun minni maður en Kristján Jóhannsson sem gegnir svipuðu hlutverki í söngleikjunum Með blik í auga og því fari hann ekki með jafnmikinn texta og gamanmál og Kristján.
Lögin sem flutt verða eru lög sem hafa lifað með þjóðinni um áratuga skeið og verða þau í upprunalegum útfærslum. Fjölskylda Rúnars Júlíussonar heitins mun koma að sýningunni að miklu leyti en Júlíus sonur hans verður á trommum í hljómsveitinni. Björgvin Ívar barnabarn Rúnars grípur svo í gítarinn. Blástursleikarar frá Tónlistarskóla Keflavíkur hjálpa til og Róbert Þórhallsson leikur á bassa. Baldur segist ekki útiloka að gömlu meðlimir Hljóma komi við sögu í dagskránni en það verði bara að koma í ljós.
Að venju verða svo tónleikar við Skólaveg þar sem upptökuverið Geimsteinn er til húsa og fjölskylda Rúnars bjó alla tíð, og gerir enn. Þar koma m.a. fram Dr. Gunni, Védís Hervör og Big Band Theory. Baldur tjáir blaðamanni það að hljómsveitin Coda komi aftur saman eftir 30 ára hlé og stífar æfingar standi nú yfir. „Þessi sveit var stofnuð um sumarið 1983. Hún hætti svo störfum um haustið sama ár eftir mikla sigra á sveitaballamarkaði,“ segir Baldur en hann er einn meðlima hljómsveitarinnar ásamt þeim Vigga Daða, Ella Gott, Óskari Nikk og Gumma Kana. „Þar munum við rifja upp 80´s takta og taka nokkur vel valin lög með David Bowie og Men at work m.a. „Það er svo ekki útilokað að við náum í gömlu gallana úr geymslunum,“ segir Baldur að lokum.