Fyrsta Pokastöð Suðurnesja opnaði í Bókasafni Reykjanesbæjar
Umhverfisvænir taupokar saumaðir í Bókasafninu
Fyrsta Pokastöð Suðurnesja var opnuð í Bókasafni Reykjanesbæjar um helgina. Pokastöðvar eru til í nokkrum sveitarfélögum á Íslandi en það er stöð þar sem fólk getur fengið að láni margnota taupoka, t.d. í bókasöfnum og matvöruverslunum. Margir eiga það til að gleyma margnota pokum heima og þá er hægt að fá taupoka að láni og skila honum síðar á hvaða Pokastöð sem er.
Bókasafnið tók þátt í Plastlausum september og bauð á laugardaginn gestum og gangandi að sauma margnota taupoka sem síðan voru gefnir í Pokastöðina. Hér eftir verður viðburðurinn „Saumað fyrir umhverfið“ á dagskrá safnsins fyrsta laugardag hvers mánaðar kl. 12 og afraksturinn alltaf gefinn í Pokastöð Bókasafnsins. Efni og saumavélar verða á staðnum en einnig má koma með eigin vélar og efni (t.d. gömul föt og rúmföt).