Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Fyrirtækin í Grindavík verða að fá súrefni
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 7. júlí 2024 kl. 08:47

Fyrirtækin í Grindavík verða að fá súrefni

„Það var gott að hitta framkvæmdanefndina, það er greinilega mikill hugur í þeim að reisa Grindavík við að nýju, ég er bjartsýnn á framtíðina,“ segir Ómar Davíð Ólafsson, einn eigenda Vélsmiðju Grindavíkur, en hann átti fund ásamt nokkrum öðrum atvinnurekendum í Grindavík með hinni nýstofnuðu framkvæmdanefnd Grindavíkur.

Ómar hefur fulla trú á framkvæmdanefndinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta var góður fundur, þau þrjú sem skipa framkvæmdanefndina voru að kynna sig og fyrir hvað þau standa. Þau vildu kynnast okkur og það var gott að heyra hljóðið í þeim. Þau vildu ganga úr skugga um að við værum einhuga um að halda starfsemi gangandi í Grindavík og fundu sannarlega kraftinn og jákvæðnina hjá atvinnurekendum og það er greinilegt að þessi nefnd ætlar sér að hjálpa til við að reisa Grindavík við að nýju.

Allir voru sammála um að stefna í sömu átt og ég fór glaður af þessum fundi. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að bærinn verði opnaður og fái súrefni því annars deyja fyrirtækin eitt af öðru. Þegar ég segi súrefni þá á ég við að bærinn verði opnaður fyrir almenningi.

Við áttum síðan frábæran fund með Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra, og Guðrúnu Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra, þar sem við komum inn á að ef fyrirtækin, og þá sérstaklega þau sem eru í ferðaþjónustu, eiga að lifa af þá verði að afnema lokunarpóstana því annars sjáum við ekki fram á annað en að flest fyrirtæki óski eftir uppkaupum. Við eigum ekki marga kosti í stöðunni, annað hvort er að opna bæinn eða að ríkið fái nánast öll fyrirtækin í fangið. Þá spyr maður sig hvort sé ódýrari lausn fyrir ríkið en hér eru líka nokkuð mörg fyrirtæki sem eru að þjónusta útgerðina, eins og Vélsmiðjan hjá okkur er að gera. Við Grindvíkingar erum bjartsýnir á meðan útgerðinni er gert kleift að vera hér með vinnslu,“ sagði Ómar Davíð að lokum.