Fyrirtæki með stórt hjarta
-Gott að reka fyrirtæki í Reykjanesbæ, segir Inga Birna Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri Kosmos & Kaos
Svo virðist sem stöðugur uppgangur sé hjá vefhönnunarstofunni Kosmos & Kaos. Fyrirtækið fagnar fimm ára afmæli sínu á árinu en það er í eigu Keflvíkingsins Guðmundar Bjarna Sigurðssonar og Kristjáns Gunnarssonar, en þeir seldu 35% hlut í sumar til bandaríska hönnunarfyrirtækisins Ueno llc. sem er með starfsemi í San Francisco og New York. Starfsmenn eru 15 í dag og hafa umsvif aukist mjög undanfarið ár.
„Það er mjög mikið að gera og hefur verið mikill uppgangur í vefsíðugerð hjá fyrirtækjum og bestun á þeirri þjónustu sem fyrirtæki eru að bjóða á vefnum. Fyrirtæki eru líka að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að vera með síðu sem virkar í öllum tækjum, notkun snjalltækja vex gríðarlega og því mjög mikilvægt fyrir fyrirtæki að tileinka sér „moblie first“ væðinguna. Vefsíður eru líka andlit fyrirtækjanna út á við og það sem viðskiptavinir skoða fyrst til að afla sér upplýsinga um vörur eða þjónustu fyrirtækja. Svo helst þetta allt í hendur við samfélagsmiðlavæðinguna og leitarvélabestun. Ég myndi ekki segja að prentið væri á útleið en klárlega er vöxturinn meiri í digital heiminum, eitthvað sem hefur ekki farið framhjá neinum,“ segir framkvæmdastjórinn Inga Birna Ragnarsdóttir. Hún segir umsvif hjá fyrirtækinu erlendis sífellt vera að aukast. „Við höfum verið að vinna fyrir erlenda aðila og munum fókusera á vöxt erlendis á komandi mánuðum. Það hefur klárlega mikið að segja að fyrirtækið sé nú að hluta til í eigu erlends fyrirtækis og eykur möguleika okkar gríðarlega á vexti þar, en Ueno LLC. hefur margfaldast í stærð sl. mánuði. Gummi Sig hönnunarstjóri Kosmos & Kaos mun einmitt dvelja í San Fransico í næsta mánuði, til þess að smakka á nýjustu straumum og stefnum í vefhönnun ásamt því auðvitað að hitta viðskiptavini og vinna fyrir núverandi viðskiptavini.“
Gott að reka fyrirtæki í Reykjanesbæ
Hvernig er að vera með svona fyrirtæki á Suðurnesjum, er það nokkuð öðruvísi en á höfðuborgarsvæðinu?
„Aðstæður á Suðurnesjum eru mjög góðar fyrir fyrirtækjarekstur, það mætti nú samt alveg vera meira líf á Hafnargötunni en við kvörtum ekki. Við fáum mikið af viðskiptavinum til okkar á fundi í Keflavík, þó við séum líka með aðsetur í Reykjavík, fólki finnst mjög skemmtilegt að taka rúntinn til Keflavíkur. Við finnum líka fyrir því að nálægð við viðskiptavini skiptir máli, en við erum að þjónusta mörg fyrirtæki í Reykjanesbæ og nágrenni og vonumst að sjálfsögðu til þess að sem flest fyrirtæki á Suðurnesjum versli heima þegar kemur að vefsíðugerð eins og öðru.“
Inga Birna hefur um 20 ára reynslu úr flugrekstri en hún segist kunna ákaflega vel við sig á þessum nýja vettvangi. „Það var alveg kominn tími á að breyta til. Það er stærsti vöxtur í IT af öllum geirum og því ekki úr vegi að viða að sér reynslu í því fagi. Ég er nú ekki alveg blaut á bakvið eyrun þegar kemur að vefsíðugerð, en ég hef verið kaupandi að vefsíðum í mörg ár og séð um rekstur þeirra hjá þeim fyrirtækjum sem ég hef unnið hjá. Svo er líka mjög gott að fá tengingu við Keflavík aftur, en ég flutti þaðan 19 ára gömul. Kosmos & Kaos er líka fyrirtæki með mjög stórt hjarta og mér líður vel með yndislegu fólki.“
Samfélagsleg ábyrgð
Inga segir að miklir möguleikar séu til staðar á Suðurnesjum til þess að hönnunar og tölvugeirinn geti vaxið enn frekar. „Ekki spurning, möguleikarnir eru óþrjótandi. Við erum með mjög flotta starfsemi á svæðinu, frumkvöðlasetur upp á Ásbrú ásamt öðrum fyrirtækjum í svipuðum rekstri sem eru að þjónusta fyrirtæki um allt land og allan heim. Staðsetningin skiptir ekki lykilatriði fyrir fyrirtæki í þessum rekstri í dag, en umhverfið skiptir hins vegar öllu, það er gott að reka fyrirtæki í Reykjanesbæ og við teljum það vera okkar samfélagslega ábyrgð að halda uppbyggingunni áfram ásamt þeim fyrirtækjum sem eru staðsett þar.“
Þið eru með 15 starfsmenn og mikið að gera, hversu stór viljiði vera? Er inn í myndinni að reyna að „meika“ það ef svo má segja?
„Ætli við séum ekki bara búin að meika það, við erum að minnsta kosti með stærri vefstofum landsins og erum að þjónusta nokkur af stærstu fyrirtækjum landsins. Við erum með starfsfólk á heimsmælikvarða, sem hafa áratuga starfsreynslu á sínu sviði og margir hverjir sem hafa unnið fyrir stór erlend fyrirtæki. Svo er þetta alltaf spurning með stærðina, hún skiptir í sjálfu sér ekki máli, svo lengi sem reksturinn er hagkvæmur. Við höldum áfram að stækka meðan eftirspurnin eftir okkar þjónustu er til staðar, en við erum samt sem áður mjög skynsöm.“