Fyrirlestur um lesblindu í Kjarna
Í kvöld kl. 20 verður fyrirlestur um Davis aðferðafræðina og námskeið sem byggja á henni í Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar í Kjarna, Hafnargötu 57. Þótt margt sé vitað um einkenni lesblindu er lítið vitað um orsakir hennar. Af þeim sökum er lítið um úrræði sem koma að raunhæfu gagni og foreldra barna sem eiga í námserfiðleikum bíður oft löng og ströng ganga við hlið barnsins um skólakerfið. Spenningur og tilhlökkun um að byrja í skóla snýst fljótt upp í andhverfu sína þegar róðurinn þyngist. Á fyrirlestrinum verður bakgrunnur Davis aðferðafræðinnar útskýrður og grein gerð fyrir Davis leiðréttingunni,sem er 5 daga einstaklingsnámskeið. Þetta er kjörið tækifæri til að fá svör við spurningum og kynnast Davis aðferðinni í nærmynd. Davis kerfið hefur á einum áratug teygt sig til 32 þjóðlanda og bók upphafsmannsins Ron Davis verið þýdd á 15 tungumál. Fyrirlesari er Kolbeinn Sigurjónsson hjá Lesblind.com.
Enginn aðgangseyrir. Allir velkomnir.