„Fyrir mér var hún ekki dópisti“
- segir Berglind Ósk Guðmundsdóttir, systir Kristínar Gerðar sem lést langt fyrir aldur fram eftir harða baráttu við fíkniefni árið 2001.
„Mín heitasta ósk er að við náum að fá einhvern til þess að taka ekki fyrsta skammtinn og það var líka hennar heitasta ósk,“ segir Berglind Ósk Guðmundsdóttir, systir Kristínar Gerðar sem lést árið 2001, langt fyrir aldur fram, eftir harða baráttu við fíkniefni. Kvikmyndin „Lof mér að falla“ eftir Baldvin Z, sem hefur skilið fólk eftir agndofa síðastliðnar vikur, var meðal annars byggð á sögu Kristínar.
„Fyrir mér var hún ekki dópisti, hún var eitthvað allt annað. Hún var bara stóra systir mín og mér fannst hún best. Kristín var rosasterkur karakter, hún hafði afgerandi skoðanir, var rosalega hæfileikarík og klár. Allt sem hún tók sér fyrir hendur gerði hún vel og fór alla leið,“ segir Berglind um systur sína, en Kristín var mjög listræn, skrifaði ljóð og texta, söng í hljómsveit og tók þátt í leikfélaginu. „Hún lifði í 31 ár, þar af tíu annað hvort í neyslu eða eftirköstum neyslu, en hún náði samt að áorka svo miklu á þessum tíma,“ segir Berglind.
Dagbækurnar urðu að bíómynd
Kristín Gerður gekk í gegnum svakalega lífsreynslu í gegnum fíknina en alltaf var hún harðákveðin í því að sú lífsreynsla mætti ekki verða til einskis. Í þau tæpu sex ár eftir að hún varð edrú lagði hún mikið á sig í forvarnarvinnu þar sem hún sagði frá sinni lífsreynslu og reyndi að koma í veg fyrir að önnur ungmenni fetuðu í sömu fótspor og hún sjálf. Kristín skrifaði ítarlegar dagbækur á meðan hún var í neyslu, en vegna þeirra varð kvikmyndin „Lof mér að falla“ til.
„Fólk er orðlaust og sjokkerað eftir myndina, en hún byggir líka á sönnum atburðum og það er ekkert verið að sykurhúða neitt. Þótt söguþráðurinn sé skáldskapur þá eru atriðin í myndinni sönn. Það er ekki verið að sáldra glimmeri yfir fíkniefnaneyslu og afleiðingar hennar, en ég held það sé einmitt þannig sem forvörnin virkar best,“ segir Berglind.
Venjulegt fólk sem sogast inn í fíknina
Margir, sem höfðu ekki hugmynd um að Kristín Gerður hefði verið í neyslu, hafa sett sig í samband við Berglindi eftir að myndin kom út. „Það er einmitt málið með fíkla, hvort sem þetta eru ungir krakkar í læknadópi eða fíklar sem eru langt leiddir, þetta eru allt bara manneskjur. Þetta eru dætur og synir, vinkonur og frænkur. Þetta eru bara ég og þú,“ segir hún og bætir því við að nauðsynlegt sé að afmá fordómana gagnvart fíklum í samfélaginu. „Það geta allir lent í þessu. Fíknin er svo sterk að þú ræður ekki við hana, heldur sogast bara inn.“
Mikilvægt að ljúka verkefni Kristínar
Ferlið við gerð myndarinnar var mjög langt að sögn Berglindar, en hún hitti Baldvin leikstjóra fyrst á fundi árið 2012. Myndin átti þó upprunalega að vera forvarnarverkefni og Baldvin vantaði þá sögu fyrir heimildamynd. En svo byrjaði boltinn að rúlla og ákveðið var, eftir að hafa lesið í gegnum dagbækur Kristínar Gerðar, að gerð yrði kvikmynd í fullri lengd.
„Það var svo mikill samhugur og samkennd á setti og fólkið fór svo vel með sögurnar. Spurningarnar sem ég hef aðallega fengið eftir að hún kom út eru hvort það sé ekki erfitt að rifja þetta alltaf upp og af hverju við séum að því? Auðvitað er það erfitt, en það er samt mikilvægt. Þetta er stór og merkileg saga, en eins og ég lít á þetta, þá er þetta ekki mín saga. Ég á allt aðra sögu um Kristínu, systur mína. Mér finnst ég bara vera að ljúka verkefni sem hún byrjaði á og ég held hún sé bara ánægð með það.“
Sólborg Guðbrands