Furðuverur úr Skólaslitum mættu á þemadaga í Akurskóla
Akurskóli í Reykjanesbæ stóð fyrir þemadögum í síðustu viku sem endaði svo með opnu húsi í skólanum, þar sem haldin var sýning á því sem nemendur höfðu verið að bralla á þemadögunum. Eins og á síðasta ári var það lestrarverkefnið Skólaslit sem var viðfangsefni þemadaganna og nemendur endurgerðu hluta af þeim hrylling sem er að finna í sögunni. Þá settu nemendur einnig upp draugahús í anda hrekkjavökunnar sem er síðar í þessum mánuði.
„Það er gaman að segja frá því að spennan og áhuginn í ár er ekki minni en í fyrra fyrir Skólaslitum – Dauð viðvörun. Nemendur bíða spenntir á hverjum morgni eftir nýjum kafla og hlusta af athygli,“ segir Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla, í samtali við Víkurfréttir.
„Skólaslit hefur svo sannarlega aukið áhuga nemenda á lestri og bókmenntum og við sáum það vel á hve spennt þau voru þegar bókin hans Ævars kom út núna í haust. Það var því gaman að tengja þemað í ár aftur við Skólaslit og nú tengdum við efnið við furðurverurnar sem eru í sögunni. Við hlökkum til að byggja enn frekar ofan á þennan áhuga á lestri og nýta í skólastarfinu,“ segir Sigurbjörg.