Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

FSingar í New York
Birta og Júlíus ásamt krökkunum frá hinum löndunum
Mánudagur 16. júlí 2018 kl. 13:04

FSingar í New York

Fengu óvart glærukynningu sem sendiherra Norður-Kóreu átti að fá

Birta Rún Benediktsdóttir og Júlíus Viggó Ólafsson fóru til Bandaríkjanna með krökkum frá sex öðrum Evrópulöndum á vegum Oddfellow. Þetta voru krakkar frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Hollandi, Póllandi og Sviss. Hægt er að horfa á viðtal við þau hér fyrir ofan eða lesa það hér fyrir neðan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Birta Rún segir okkur hér hvernig ferðin þeirra var.

Fyrst komu krakkarnir til Íslands og eyddu fjórum dögum hér og við fengum að sýna þeim landið okkar. Við fórum á helstu túristastaðina, Bláa lónið, Gullfoss og Geysi, sýndum þeim allt Reykjanesið, höfuðborgina og fórum líka í Friðheima. Síðan flugum við til New York og hótelið okkar var á Manhattan sem var æðislegt. Annar dagurinn okkar í New York snerist um að skoða borgina. Við fórum á heilmarga staði og löbbuðum mikið, Central Park, Grand Central Terminal, Chrysler Building, Rockefeller Center, Lincoln Square, Times Sqaure, MoMa (sem er safn) og margt fleira. Daginn eftir skoðuðum við meira, við fórum í One World Trade Center og 9/11 minningarreitinn. Við vorum svo heppin með það að það var 4. júlí sem er þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna og það var mjög gaman að sjá hvernig þau halda upp á hann. Það var flugeldasýning um kvöldið og að sjálfsögðu horfðum við á hana. Þriðja daginn fórum við í byggingu Sameinuðu þjóðanna og fengum fyrirlestur þar. Svo fengum við smá tíma til að versla og um kvöldið fórum við á Broadway-sýningu. Síðan héldum við til Washington og keyrðum þangað í fjóra tíma. Við skoðuðum helling þar líka eins og Jefferson Memorial, Arlington-kirkjugarðinn og að sjálfsögðu fórum við að Hvíta húsinu. Síðan flugum við öll saman til Íslands og krakkarnir tóku annað flug heim til sín.

Mér fannst þetta skemmtileg upplifun. Það er mjög gaman að hitta krakka frá öðrum hlutum heimsins, sjá þeirra venjur og menningu og eyða nokkrum dögum með þeim. Við kynntumst þeim hratt og á svona stuttum tíma urðum við mjög góðir vinir og ætlum að halda sambandi okkar eins lengi og við getum. Þetta var reynsla og upplifun sem ég er mjög þakklát fyrir og ef mér gefst annað svona tækifæri þá ætla ég að grípa það hiklaust

Af hverju voru þið valin?

Okkur bauðst að skrifa ritgerð um græna orku. Tíu flottustu ritgerðirnar yrðu valdar og þessir tíu aðilar færu í viðtal, hvers vegna þeim langaði að fara til Bandaríkjanna og hvað þeir vissu um Sameinuðu þjóðirnar og Oddfellow. Síðan yrðu tveir nemendur valdir og þeir nemendur færu út. Við Júlíus vorum svo heppin að vera valin og fórum út ásamt 17 öðrum krökkum frá sex öðrum Evrópulöndum.