FS útskrifaði 80 nemendur um helgina
Skólaslit vorannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram nú um helgina þar sem 80 nemendur útskrifuðust.
Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Lovísa Guðjónsdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Ægir Sigurðsson kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Að venju var flutt tónlist við athöfnina en að þessu sinni flutti söngsveitin Drengjabandið tvö lög undir stjórn Gunnlaugs Sigurðssonar stærðfræðikennara. Drengjabandið er hópur kennara og starfsmanna sem hittist reglulega og syngur saman. Hópurinn hefur undanfarin ár sungið við ýmsar uppákomur í skólanum við góðan orðstír.
Skólinn fagnar 40 ára afmæli í haust og var því verið að slíta 80. önninni í sögu skólans. Svo skemmtilega vildi til að við þessa útskrift var 5000. nemandinn útskrifaður frá skólanum. Það var Einar Ingi Kristmundsson sem lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut og fékk hann blómvönd í tilefni þessa áfanga.
Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Skiptineminn Nonoko Mori frá Japan fékk gjöf til minningar um veru sína í skólanum og á Íslandi. Lovísa Guðjónsdóttir og Ellen Hrund Ólafsdóttir fengu viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda, Ingibjörg Þóra Þórarinsdóttir fyrir íþróttagreinar, Ingibjörg Sól Jónsdóttir fyrir spænsku og Manuel Björn Gomes Jóhannsson fyrir góðan árangur í ensku. Tvíburabræðurnir Arnór Smári og Patrekur Örn Friðrikssynir fengu báðir viðurkenningu fyrir árangur sinn í viðskiptagreinum, Emil Ragnar Ægisson fyrir efnafræði og Gunnar Dagur Jónsson fékk sömuleiðis viðurkenningu fyrir góðan árangur í efnafræði. Kinga Sawicka fékk verðlaun frá Ísbrú, félagi kennara sem kenna íslensku sem annað tungumál, fyrir góðan árangur í íslensku hjá nemanda sem er með annað móðurmál. Heiðar Örn Hönnuson fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í dönsku og hann fékk einnig gjöf frá danska sendiráðinu fyrir árangur sinn í dönsku. Ingunn María Haraldsdóttir fékk viðurkenningu fyrir árangur sinn í fata- og textílgreinum og hún fékk einnig gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í verk- og listgreinum. Aþena Eir Jónsdóttir fékk viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan árangur í félagsfræði og einnig fyrir árangur sinn í viðskiptagreinum. Margrét Rut Reynisdóttir fékk viðurkenningar fyrir sálfræði- og uppeldisfræði, félagsfræði og spænsku og hún fékk einnig gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í samfélagsgreinum. Bjarki Jóhannsson fékk viðurkenningar fyrir árangur sinn í stærðfræði, spænsku og eðlis- og efnafræði. Hann fékk einnig gjöf frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði og frá Þekkingarsetri Suðurnesja fyrir árangur í raungreinum. Bjarki fékk síðan gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í stærðfræði og raungreinum. Bjarki hlaut einnig raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík en þau hlýtur sá nemandi sem nær bestum árangri í raungreinum á stúdentsprófi. Hann fékk bók að gjöf en kjósi verðlaunahafi að hefja nám við Háskólann í Reykjavík fær hann auk þess nýnemastyrk og niðurfelld skólagjöld fyrstu önnina í námi. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Bjarki Jóhannsson styrkinn. Bjarki fékk einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.
Við útskriftina veittu nemendafélagið NFS, foreldrafélag skólans og Reykjanesbær verðlaun fyrir jákvæða framkomu á skemmtunum félagsins í vetur og afhenti Lovísa Guðjónsdóttir fráfarandi formaður NFS verðlaunin. Það voru þau Ástrós Brynjarsdóttir og Kristján Þórarinn Ingibergsson sem voru dregin úr hópi þeirra nemenda sem uppfylltu skilyrðin fyrir þátttöku en þau fengu bæði spjaldtölvu að gjöf.
Guðbjörg Ingimundardóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita nemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Hjörtur Sölvi Steinarsson fékk 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í ræðumennsku og góðan árangur í lífsleikni og nemendafélagið fékk 150.000 kr. styrk vegna góðs árangurs í MORFÍS, mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna.
Við athöfnina veitti skólameistari Ólafi Baldvin Sigurðssyni kennara í rafiðngreinum og Lárusi Pálmasyni kennara í netagerð gullmerki Fjölbrautaskóla Suðurnesja en þeir hafa báðir starfað við skólann í 25 ár. Það er hefð að veita starfsfólki skólans þessa viðurkenningu við þessi tímamót.
Við lok útskriftarinnar var Guðni Kjartansson íþróttakennari kvaddur en hann lætur nú af störfum eftir að hafa kennt við skólann frá árinu 1980.
Stúdentar voru 56, 24 luku starfs- eða verknámsprófi af hinum ýmsu brautum, flestir af listnámsbraut eða sex talsins, en fimm nemendur útskrifuðust af sjúkraliðabraut. Þá luku níu nemendur prófi af starfsbraut. Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur námsbrautum. Karlar voru 43 og konur 37. Alls komu 63 úr Reykjanesbæ, sjö úr Grindavík, fjórir úr Garði, tveir úr Sandgerði og einn úr Vogum. Einn kom frá Þorlákshöfn, einn frá Hvolsvelli og einn frá Höfn í Hornafirði. Þá lauk einn skiptinemi námi frá skólanum.