Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

FS og NES halda áfram samstarfi
Þriðjudagur 11. október 2005 kl. 17:37

FS og NES halda áfram samstarfi

Fjölbrautaskóli Suðurnesja og Íþróttafélag fatlaðra á Suðurnesjum, NES, munu starfa náið saman í vetur eins og síðustu ár en skrifað var undir samning um samstarfið í dag.

Samstarf skólans og NES felur í sér að skólinn býður upp á áfanga í íþróttum fatlaðra en kennslan fer fram á æfingum og mótum á vegum NES. Nemendur aðstoða þjálfara á æfingum og taka þátt í mótahaldi og keppnum sem leiðbeinendur eða dómarar. Markmiðið er að nemendur fræðist um og kynnist íþróttum fatlaðra og þjálfun fatlaðra. Þeir læri mótahald og hlutverk starfsmanna á mótum, taki dómarapróf í Boocía, læri skipulag og umsjón með íþróttaferðalögum, kynnist fötluðum einstaklingum og gildi þess að aðstoða þá sem þurfa á aðstoð að halda.

Á vefsíðu FS segir að það sé skólanum mikið ánægjuefni að áframhald verði á samstarfinu við NES. Nemendur hafa haft mikla ánægju af þátttöku sinni í starfi félagsins og dregið af því heilmikinn lærdóm. Á móti hafa þeir fengið hugheilar þakkir frá NES og meðlimum þess fyrir sitt framlag. Á myndinni undirrita Oddný Harðardóttir skólameistari og Kjartan Steinarsson, formaður NES, samninginn.

Af vefsíðu FS. Mynd/Guðmann
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024