Frumkvöðlafyrirtæki af Suðurnesjunum í útrás til Indlands
Mýr design og GeoSilica fóru á framandi slóðir
Tvö nýsköpunarfyrirtæki sem stofnuð voru af Suðurnesjakonum og eru með aðsetur í Eldey, frumkvöðlasetri á Ásbrú, héldu nýlega til Indlands að kynna vörur sínar og hönnun. Fida Abu Libdeh og Ágústa Valgeirsdóttir frá GeoSilica kynntu helstu vöru fyrirtækisins sem er 100% náttúrulegt íslenskt kísilsteinefni í vökvaformi sem hefur góð áhrif á bein, húð, hár og neglur. Fida hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir frumkvöðlastarf sitt og var m.a. valin Suðurnesjamaður ársins 2014 af Víkurfréttum.
Þrír fulltrúar frá fatahönnunarfyrirtækinu Mýr kynntu hönnun Suðurnesjakonunnar Helgu Bjargar Steinþórsdóttur en ásamt henni voru með í för Björk Þorsteinsdóttir og Ragnar Sigurðsson. Sendisveitin frá Suðurnesjunum dvaldi á Indlandi í rúma viku og fundaði með iðnaðar- og verslunarráði Indlands, félagi kvenna í atvinnulífinu og fulltrúum frá fylkisstjórn Meghalaya sem er fylki í norð-austur hluta Indlands þar sem jafnrétti kynjanna er talið hvað mest á landsvísu.
Sendiráðsfulltrúar Íslands skipulögðu þetta dagskrá af viðskiptafundum og öðrum viðburðum og var sendiherra Íslands á Indlandi, Þórir Ibsen þeim innan handar á meðan dvölinni stóð. Stóð hann einnig fyrir boði á heimili sínu þar sem mörgum af þekkustu hönnuðum og viðskiptafólki í Delhi var boðið og mættu m.a. einn virtasti fatahönnuður landsins, Rohit Bal og forsætisráðherra Meghalaya fylkis, Dr. Mukul Sangma. Heimsókn íslenska hópsins vakti mikla fjölmiðlaathygli og fengu fulltrúar fyrirtækjanna gott tækifæri til að kynna sig meðal áhrifafólks í viðskiptalífinu á Indlandi.
För íslenska hópsins kom til í kjölfar heimsóknar Félags kvenna í atvinnulífinu á Indlandi til Íslands fyrr á árinu. Um 40 athafnakonur heimsóttu Félag kvenna í atvinnulífinu á Íslandi (FKA) og kynntust íslenskum konum, fyrirtækjum og vörum. Ein kvennanna, Julie Deb, starfar sem markaðstengiliður og rekur kynningarfyrirtækið Midori á Indlandi. Hún heillaðist af fyrirtækjunum tveimur þegar hún heimsótti frumkvöðlasetrið á Ásbrú og bauð þeim í kjölfarið í heimsókn til Indlands til þess að koma á viðskiptasamböndum. Julie starfar einnig hjá hinu nýstofnaða indversk-íslenska verslunarráði, en viðskipti á milli þessara tveggja landa eru á algjöru byrjunarstigi.
Ísland mjög ofarlega á áhugasviði Indverja
Björk Þorsteinsdóttir hjá Mýr segir kynningu þeirra á nýjustu fatalínunni hafa gengið mjög vel. „Ísland er mjög ofarlega á áhugasviði Indverja þessa dagana. Við fórum í fjölmörg viðtöl og birtust nokkrar greinar í dagblöðum Nýju Delhi. Framundan hjá okkur er að vinna úr öllum þeim upplýsingum, ráðleggingum og tengingum sem okkur áskotnaðist í ferðinni. Skype fundir eru skipulagðir nú þegar með aðilum sem hafa mikinn áhuga á samstarfi, en við ætlum að vanda vel til verka og tökum okkar tíma. Þessi vika var ævintýri líkust þar sem stjanað var við okkur í hvívetna, við vorum keyrðar út um allt og alls staðar vöktum við mikla athygli bæði fjölmiðla og almennings. Vonandi er þetta bara upphafið af góðu og stöðugu viðskiptasambandi milli Íslands og Indlands,“ sagði Björk í samtali við Víkurfréttir.
GeoSilica fundaði aukalega með háskóla í Delhi sem mun mögulega framkvæma klínískar rannsóknir á aðalvöru fyrirtækisins sem myndi styrkja stöðu þeirra enn frekar á indverska markaðnum sem og á heimamarkaði. GoeSilica er um þessar mundir að þróa nýja vörulínu í samvinnu við þýskt fyrirtæki en vörurnar eiga það sameiginlegt að allar eru þær með kísil sem aðalhráefni en með viðbættum steinefnum. ,,Við munum hafa eina vöru sem ætluð er fyrir húð, hár og neglur, aðra ætluð fyrir beinin og sú seinasta fyrir liðina. Ekki er alveg búið að útfæra hvernig þær vörur verða en markmiðið er að koma með vörunar á markað í enda þessa árs eða byrjun næsta árs,“ sagði Ágústa Valgeirsdóttir verkefna- og viðskiptaþróunarstjóri fyrirtækisins í samtali við Víkurfréttir.
GeoSilica hefur vakið athygli fyrir nýstárlegar markaðsaðferðir eins og óvæntar uppákomur, stutt myndbönd og virkni á samfélagsmiðlum eins og Snapchat. Ágústa segir það stefnu fyrirtækisins að fara öðruvísi leiðir. ,,Við erum ungt sprotafyrirtæki á mjög svo samkeppnishæfum markaði og til þess að koma sér á framfæri er góð leið að fara óhefðbundnar leiðir í markaðssetningu. Einnig þar sem við erum frumkvöðlafyrirtæki og ekki með neina fjárfesta þá skiptir hver króna máli og þá er gott að vera með hugmyndaríkar leiðir fyrir markaðssetingu.“ Hægt er að fylgjast með GeoSilica á Facebook en einnig á Snapchat aðgangi þeirra – GeoSilica. Mýr er með heimasíðuna myr.design þar sem hægt er að skoða fatalínuna þeirra.
Hér að neðan má sjá veglega myndasyrpu frá ferðalaginu.