Fróðlegur fyrirlestur um Guðberg
Síðastliðinn laugardag var flutt erindi í Saltfisksetrinu sem bar yfirskriftina Talað um fegurðina. Þar fjallaði Birna Bjarnadóttir doktor í fagurfræði nútímabókmennta um fagurfræði í skáldskap Guðbergs Bergssonar. Jafnframt fjallaði hún um útgáfu á enskri þýðingu bókarinnar Holdið heimur andann sem McGill-Queen's University Press í Montréal er að fara gefa út síðar á þessu ári.
Bókin sem kom út á vegum Háskólaútgáfunnar árið 2003 er sú fyrsta sinnar tegundar um skáldskap Guðbergs og fagurfræði íslenskra nútímabókmennta í samhengi heimsbókmennta. Í bókinni sýnir Birna fram á hvernig fagurfræði skáldskapar Guðbergs felur ekki aðeins í sér samræðu við íslenskt samfélag og menningu, heldur megi finna í henni hugmyndalegar samsvaranir við ákveðin skáld og heimspekinga í vestrænni hugmynda- og frásagnarhefð.
Á fyrirlestrinum lýsti Birna því hversu mikil vinna er á bakvið útgáfu þessarar bókar í Kanada og hversu langt og strangt ferli þarf að fara í gegnum til að fá samþykkta útgáfu hjá þessu þekkta úgáfufyrirtæki. Þegar Birna hafði lokið máli sínu sté Guðbergur í pontu og staðfesti frásögn Birnu. Hann hefði nú ekki haft mikla trú á Birnu þegar hún flutti honum fréttirnar af þessari útgáfu og lagðist hann sjálfur í töluverða rannsóknarvinnu til að fá þetta staðfest. Ljóst er að útgáfa þessarar bókar er mikil upphefð bæði fyrir Birnu sem og Guðberg sjálfan.
Góð mæting var á fyrirlesturinn og gerðu þó nokkuð margir sér ferð af höfuðborgarsvæðinu til að hlýða á.
Frétt og myndir af vef Grindavíkurbæjar.