Frítt á gítartónleika í Duushúsum
Gítarleikarinn Kristinn Árnason heldur tónleika í Bíósalnum í Duushúsum föstudagskvöldið 19. janúar kl 18.00. Á efnisskránni eru verk eftir Weiss, Bach, Giuliani og Granados. Tónleikarnir standa í u.þ.b. klukkutíma og er ókeypis inn og eru allir tónlistarunnendur velkomnir.
Kristinn hóf ungur nám í klassískum gítarleik og lauk burtfararprófi frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar árið 1983.
Hann stundaði framhaldsnám í New York, Englandi og á Spáni. Síðan hann lauk námi hefur Kristinn starfað við tónlist og tónlistarkennslu.
Fjórir einleiksdiskar hafa komið út með gítarleik Kristins og fékk hann íslensku tónlistarverðlaunin árið 1997 fyrir einn þeirra. Einnig hefur hann verið tilnefndur til menningarverðlauna DV og hlotið starfslaun listamanna frá íslenska ríkinu.