Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Frístundin: Myndar hversdagslega hluti
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
fimmtudaginn 2. júní 2022 kl. 16:31

Frístundin: Myndar hversdagslega hluti

Jóhann Alexander gengur marga kílómetra á viku með myndavélina í fanginu og tekur myndir á för sinni um bæinn. „Þetta eru um tveir til sex kílómetrar á dag en ég hef alveg farið allt upp í sextán kílómetra,“ segir Jóhann. Jafnaldrar hans nota alla jafna farsíma sína til að taka myndir en Jóhanni segist líða vel með myndavélina í hönd. „Alltaf þegar ég er með myndavélina í hendinni líður mér vel. Svo fær maður ekki eins góð gæði í gegnum símann og í myndavélinni. Með myndavélinni nær maður ákveðinni dýpt sem er ekki hægt að ná með símanum.“

En hvar kviknaði áhugi hans á ljósmyndun?

„Áhuginn kemur frá móður minni. Ég fékk hugmyndina af svona ljósmyndun í gegnum YouTube. Áður en ég fékk myndavélina var ég endalaust að skoða myndbönd og horfði mest á myndbönd um „street photography“. Ég ákvað að prófa það til að byrja með þegar ég var að læra hvernig myndavélin virkaði,“ segir Jóhann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jóhann deilir myndum sínum á Instagram síðu sinni undir nafninu Johnsfots. Aðspurður hvað hann vilji gera við myndirnar segir hann: „Ég veit það ekki, ég hef reynt að selja þær á netinu en það hefur ekki gengið. Kennarinn minn kom með þá hugmynd að halda ljósmyndasýningu, ég var bara ekki alveg viss með það en það mun kannski gerast einhvern tímann.“

Jóhann er í björgunarsveitinni Ægi í Garðinum en hann segir ljósmyndun vera fyrst og fremst áhugamál. Jóhann segir að draumur hans sé að taka myndir á björgunarvettvangi. „Það væri alveg geggjað að taka myndir á vettvangi fyrir allt sem fellur undir 112 en það myndi þá vera bara sem áhugamál. Til dæmis ef eitthvað væri í gangi hjá lögreglu, björgunarsveitinni, landhelgisgæslunni eða slökkviliðinu þá væri ég til í að taka myndir af þeim í starfi,“ segir Jóhann.

Meðfylgjandi myndir eru allar eftir Jóhann.

Frístund: Áhugaljósmyndarinn Jóhann Alexander Þorsteinsson