Frístundaúrræði fyrir fatlaða í Grindavík
Þjónustan rekin af Grindavíkurbæ.
Í janúar hófst þjónusta við fatlaða grunnskólanemendur í Grindavík samkvæmt frístundarúrræði. Starfsemi þessi er rekin af Grindavíkurbæ. Áður höfðu nemendur verið keyrðir til Reykjanesbæjar þar sem þeir höfðu verið í frístundaúrræði fyrir fatlaða í Holtaskóla og Njarðvíkurskóla.
Þetta er í raun frístundaklúbbur sem starfræktur er samkvæmt lögum um þjónustu við fatlaða.
Opnunartími er frá því að nemendur eru búnir í skólanum og til kl. 16. Úrræði þetta er ætlað að mæta fötluðum nemendum í 4. - 10. bekk.
Frístundarklúbburinn hefur aðsetur í tónmenntarstofunni í Hópsskóla en reynt er að vera bara þar í lok dags þegar nestið er borðað. Farið er í heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir í bænum.
Starfsmenn eru Marko Valdimar Stefánsson og Bjarney Steinunn Einarsdóttir en umsjónaraðili er Ásdís Kjartansdóttir þroskaþjálfi. Starfsemin er í þróun þar sem þetta hefur bara verið starfrækt frá því í janúar og verður að sögn spennandi að fylgja verkefninu eftir.