Frístundasumar í Reykjanesbæ: Lýst eftir þátttakendum
Frístundasumarið, sýning þar sem félagasamtök listamanna og hinna ýmsu tómstundaklúbba í Reykjanesbæ taka saman höndum og kynna starfsemi sína verður haldin í Reykjaneshöll dagana 12. og 13. maí. Þar verður handverksfólk einnig með sölubása og söfn bæjarins verða opin alla helgina. „Svo má líka benda á að mótorhjólaáhugamenn verða á staðnum og eigum við von á minnst 50 hjólum,“ sagði Margrét Gledhill, framkmvæmdastjóri sýningarinnar. „Nú hefur líka verið ákveðið að víkka þetta út og kalla þetta Frístundasumarið og vera þar með ýmislegt tengt sumrinu eins og nafnið ber með sér. Fyrirtæki tengd ferðaþjónustu sýna tjaldvagna, húsbíla og yfirleitt allt sem tengist sumrinu og sumarsporti. Viljum við fá sem flesta til að koma hingað í Reykjanesbæ og sjá hvað við höfum upp á að bjóða.“
Frítt verður inn á sýninguna og ætlar Reykjanesbær að vera með í að bjóða upp á ýmislegt sem laðar fólk að. Aðaláherslan er á að fá sem flesta til að vera með.
Allir sem hafa áhuga á að taka þátt eru beðnir að hafa samband við Margréti í síma 897 3069.