Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fréttir af félagsstarfi eldri borgara
Fimmtudagur 5. apríl 2012 kl. 13:34

Fréttir af félagsstarfi eldri borgara

Mánudaginn 2. apríl var haldið billiardmót í Ballskákfélagi eldri borgara í Reykjanesbæ. Yfir 20 þátttakendur tóku þátt og háðu harða keppni. Leikar fóru á þann veg að Karl Þorsteinsson sigraði Jósep Valgeirsson í mögnuðum úrslitaleik. Í þriðja sæti hafnaði Valdimar Axelsson. Ballskákklúbburinn kemur saman á mánudags og fimmtudagsmorgnum í Virkjun. Til gamans má geta að klúbburinn safnaði sjálfur fyrir billiardborðunum með aðstoð góðra fyrirtækja á svæðinu sem og með styrk frá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjanesbæjar.
 

Miðvikudaginn 4. apríl fór fram Boccia mót eldri borgara í Íþróttahúsinu að Ásbrú. Mótið var mjög vel sótt. Keppt var í fjórum fimm manna riðlum. Í undanúrslitum léku Björn Maronsson, Guðbrandur Valtýsson, Ísleifur Guðleifsson og Jóhann Alexandersson. Að lokum var það svo Guðbrandur Valtýsson sem sigraði Ísleif Guðleifsson í úrslitum.
 

Dagana 13. - 14. apríl munu þátttakendur frá Reykjanesbæ halda til Siglufjarðar til að taka þátt í Íslandsmóti félags áhugafólks um íþróttir aldraðra. Þar eigum við titil að verja en eins og kunnugt er þá vann lið Reykjanesbæjar titilinn í Borgarnesi á síðasta ári. Lið Reykjanesbæjar var skipað þeim Hákoni Þorvaldssyni, Marinó Haraldssyni og Ísleifi Guðleifssyni.
 

Félagsstarf aldraðra er samstarfsverkefni Íþrótta- og tómstundasviðs, Fjölskyldu- og félagsþjónustunnar og Félags eldri borgara.
 

Kær páskakveðja, Hafþór Birgisson tómstundafulltrúi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Efri myndin: F.h.: Hafþór Birgisson, Valdimar Axelsson, Karl Þorsteinsson og Jósep Valgeirsson.

Neðri myndin: Jóhann Alexandersson, Guðbrandur Valtýsson og Ísleifur Guðleifsson.