Framtíðin björt í ört vaxandi bæjarfélagi
Kjartan Már Kjartansson er tilbúinn að starfa áfram sem bæjarstjóri Reykjansbæjar verði eftir því leitað. Endurskipulagning fjármála Reykjanesbæjar tók 90% af tíma og orku stjórnenda árin 2014 til 2018. Horfir til betri vegar á flestum sviðum en áfram áskoranir.
„Ég er tilbúinn að starfa áfram sem bæjarstjóri Reykjanesbæjar ef eftir því verður leitað. Þetta er skemmtilegt og lifandi starf sem hefur verið mjög gefandi síðustu átta ár. Það hafa skipst á skin og skúrir en framtíðin er mjög björt í mest vaxandi sveitarfélagi á Íslandi,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar en hann hefur verið bæjarstjóri í 8 ár.
Hvað einkenndi kjörtímabilið 2014-2018?
Kjartan segir að það hafa verið áskorun og stórt verkefni sem beið nýs meirihluta og hans sem bæjarstjóra árið 2014 en þá var fjárhagsstaða Reykjanesbæjar slæm.
„Endurskipulagning efnahags og fjármála Reykjanesbæjar tók 90% af tíma og orku stjórnenda m.a. viðræður við kröfuhafa og mikil samskipti við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Það var góð samstaða í bæjarstjórn um að taka þyrfti á málum af mikilli festu. Það skipti sköpum og var mikil samstaða um flestar hagræðingaraðgerðir sem ráðist var í hjá bæði meiri- og minnihluta.“
Bæjarbúar þurftu líka að taka þátt í baráttunni með því að greiða hæstu álögur og þá þurftu starfsmenn einnig að taka þátt í hagræðingunni, er það ekki?
„Langflestir starfsmenn og íbúar sýndu hagræðingaraðgerðum skilning auk þess sem íbúar tóku á sig auknar álögur í formi aukaálags á útsvar og hærri fasteignaskatta. Samtímis var mikill uppgangur í flugumferð á Keflavíkurflugvelli, flugfélagið WOW Air stækkaði hratt og næg atvinna var fyrir alla sem vildu og gátu unnið. Allt þetta hjálpaði til við að rétta fjárhaginn af með auknum tekjum.“
Síðla árs 2016 hóf kísilver United Silicon starfsemi sem, eftir mikla hrakfallasögu, endaði með stöðvun starfseminnar um mitt ár 2017. Kjartan segir að enginn áhugi sé hjá Reykjanesbæ að þessi starfsemi fari í gang á nýjan leik. Horfa þurfi til nýrra leiða í Helguvík, m.a. með svokölluðum grænum leiðum.
Á árunum 2014 til 2018 var mikil íbúafjölgun, m.a. út af útþennslu ferðaþjónustunnar með Keflavíkurflugvöll á svæðinu. Hvernig gekk að takast á við þessa áskorun?
„Erlent vinnuafl streymdi til landsins og íbúum í Reykjanesbæ fjölgaði úr 14500 í tæplega 19000 eða um 30%. Fjölgunin kallaði á margskonar uppbyggingu t.d. skóla og leikskóla sem gerði okkur erfitt fyrir því sveitarfélagið átti lítið sem ekkert handbært fé, og frekari skuldsetning með lántökum var óheimil.“
Þið voruð með Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga með gleraugun á ykkur á sama tíma og þið voruð í viðræðum við kröfuhafa. Hvernig gekk að takast á við fjárhagsvandann og ná niður skuldum bæjarins?
„Vinna við endurskipulagningu efnahags gekk nokkuð vel á sama tíma og skuldaviðmið samstæðunnar lækkaði úr 233% í 137% á kjörtímabilinu 2014-2018. Við þurftum að komast niður fyrir 150% skuldaviðmið og það tókst.“
Hvað hefur einkennt kjörtímabilið sem nú er að ljúka þ.e. 2018-2022?
„Í upphafi kjörtímabilsins, sumarið 2018, var útlitið bjart, mikið að gera á flugvellinum, hátt atvinnustig og allt á fullu. Íbúum hélt áfram að fjölga. Um haustið fór að halla undan fæti hjá WOW sem fækkaði flugvélum og hóf að draga saman seglin. Sú vegferð endaði með gjaldþroti félagsins í mars 2019. Í kjölfarið hófst erfiður tími fyrir marga íbúa og fjölskyldur, atvinnuleysi jókst hratt en íbúum hélt samt áfram að fjölga með tilheyrandi áskorunum fyrir allt og alla, ekki síst starfsfólk félagsþjónustunnar.
Reykjanesbær fagnaði 25 ára afmæli árið 2019 með ýmsu móti. Meðal annars kom forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, í opinbera heimsókn ásamt eiginkonu sinni Elízu Reid. Það var ánægjulegt að geta sýnt forsetahjónunum margt áhugavert og skemmtilegt í ört vaxandi sveitarfélagi þar sem fjórði hver íbúi er af erlendum uppruna. Það er ein af mörgum áskorunum sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir og við brugðumst við með að ráða sérstakan verkefnastjóra fjölmenningarmála sem sinnir málefnum þessara íbúa. Við höfum t.d. verið tvisvar sinnum með pólska menningardaga í samvinnu við pólska samfélagið í Reykjanesbæ. Við þurfum áfram að tengja þennan hluta íbúa við íslenska samfélagið en samvinnan hefur gengið vel þó auðvitað megi alltaf gera betur.“
Hvernig gekk að reka sveitarfélagið í heimsfaraldri með tilheyrandi áskorunum?
„Í febrúar 2020 skall á heimsfaraldur Covid 19 með afleiðingum sem öllum eru kunnar, miklum takmörkunum og gríðarlegu atvinnuleysi m.a. vegna mikils samdráttar á flugvellinum. Að undanförnu hefur ástandið lagast mikið og atvinnuleysi sem fór mest í 26% komið niður fyrir 10% og fer hratt lækkandi. Samfélagið er að komast í svipað horf og fyrir faraldur með miklum vexti í ferðaþjónustu og öðru. Við höfum rætt mikið að það þurfi að fjölga tækifærunum í atvinnumálum og það er stöðugt verið að skoða þau mál.
Ofan í heimsfaraldur urðu svo miklar jarðhræringar á Reykjanesi sem enduðu með því að eldgos hófst í Fagradalsfjalli í mars 2021. Eldgosið reyndist síðan mikil auglýsing fyrir Ísland og ferðamenn flykktust til landsins til að skoða það. Vegna áskorana vegna jarðhræringa í aðdraganda eldgoss settum við á laggirnar Neyðarstjórn Reykjanesbæjar og mikið púður fór í störf Almannavarna Suðurnesja en starfi bæjarstjóra fylgir formennska í báðum nefndunum.“
Eftir mögur ár frá árunum 2014 til 2018 þar sem framkvæmdir voru ekki miklar í bæjarfélaginu fóru hjólin fóru að snúast á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka, er það ekki?
„Já, framkvæmdir hófust við byggingu Stapaskóla í ársbyrjun 2019 og fyrsti áfangi skólans var tekinn í notkun haustið 2020. Bygging 2. áfanga, sem hýsa mun nýtt glæsilegt íþróttahús og sundlaug, er hafin og bygging 3. og síðasta áfangans fyrir leikskólastigið hefst á næsta ári 2023. Þá hefur skólalóð Stapaskóla vakið mikla athygli og er nú unnið að undirbúningi þess að uppfæra allar skólalóðir grunnskólanna á næstu árum. Við höfum fjármagnað framkvæmdir við Stapaskóla úr bæjarsjóði, án þess að taka lán en heildarkostnaður mun nema um 5 til 6 milljörðum króna þegar yfir lýkur. En við gerðum meira. Við opnuðum nýjan gervigrasvöll á síðasta ári, bættum inniaðstöðu golfklúbbsins og nýtt borðtennisfélag fékk glæsilega aðstöðu svo eitthvað sé nefnt. Einnig var haldið áfram að byggja upp gamla og nýja göngustíga og útsvæði Sundmiðstöðvarinnar við Sunnubraut fékk andlitslyftingu.
Annað sem hefur einkennt þetta kjörtímabil er stefnumörkun í mörgum málaflokkum. Meginstefna sveitarfélagsins, sem ber yfirskriftina „Í krafti fjölbreytileikans“, var samþykkt í lok árs 2019 og er ætlað að varða veginn til 2030. Auk þess höfum við mótað stefnur í mörgum öðrum málaflokkum svo sem umhverfis- og loftslagsmálum og nýrri menntastefnu sem ber yfirskriftina „Með opnum hug og gleði í hjarta“.
Kjartan segir að í lok síðasta árs, 2021, voru íbúar orðnir 20400 og skuldaviðmiðið komið niður í 120%. „Þetta hefur gengið vonum framar og ástæða til bjartsýni.“
Hvað bíður nýrrar bæjarstjórnar?
„Fyrst og fremst skemmtilegir tímar og spennandi verkefni. Starfsemin á Keflavíkurflugvelli er óðum að komast í samt horf og áhugi á svæðinu fer hratt vaxandi og margt í pípunum og atvinnu. Það eru fjölmörg áhugaverð verkefni framundan við þéttingu byggðar m.a. í Grófinni, á nokkrum svæðum við Hafnargötuna, á Vatnsnesi, í 2. og 3. áfanga Hlíðahverfis og í Dalshverfi III. Auk þess verður unnið að fjölgun atvinnutækifæra t.d. í Njarðvíkurhöfn, í fyrrum kerskálum Norðuráls í Helguvík, úti á Reykjanesi og á nærsvæðum flugvallarins í samvinnu Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar, ISAVIA og Kadeco. Við þurfum að auka fjölbreytni í atvinnulífi og þannig dreifa eggjunum í fleiri körfur. Til þess að það sé hægt þarf íbúum að fjölga enn meira og það verður áframhaldandi áskorun að halda í við þá fjölgun með uppbyggingu innviða eins og leik- og grunnskóla en nú er undirbúningur að byggingu þriggja nýrra leikskóla hafinn m.a. í Hlíðahverfi og Dalshverfi III.
Þá mun ríkið byggja nýja heilsugæslustöð í Innri Njarðvík og nýtt hjúkrunarheimili á Nesvöllum í samvinnu við Reykjanesbæ. Á komandi kjörtímabili þarf einnig að innleiða margvíslegar stefnur og verkefni þeim tengdum m.a. grípa til markvissra aðgerða í loftlagsmálum, innleiða farsældarlögin svokölluðu og menntastefnuna. Þannig að það verður nóg að gera hjá nýrri bæjarstjórn og starfsfólki Reykjanebæjar,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri.
Bæjarstjórinn rýnir í símann með Helga Arnarssyni, fræðslustjóra í Duus Safnahúsum en hann er einn af nánum samstarfsmönnum Kjartans á bæjarskrifstofunni.
Kjartan Már mætir í sundlaugina flesta daga.
Bæjarstjórinn setur Ljósanótt við Myllubakkaskóla í Keflavík.