Framleiða vinsæl flöskudagatöl og jólasleða í frístundum
– Bræðurnir Bjarni Sigurðsson og Björgvin Sigurðsson hafa nóg fyrir stafni
Bræðurnir Bjarni Sigurðsson og Björgvin Sigurðsson eiga og reka Bitann, vinsæla ísbúð, grill og söluturn við Iðavelli í Keflavík. Þó svo það sé meira en nóg að gera í sjoppurekstrinum þá hafa þeir verið duglegir að finna sér eitthvað meira að gera. Síðustu vikur hafa bræðurnir vakið athygli á samfélagsmiðlum fyrir handverk sem þeir eru að fást við í frístundum.
Fyrir þremur árum keyptu þeir sér lítinn Laser Engraver, tæki sem teiknar á hluti með leysigeisla og fóru að föndra í bílskúrnum hjá Björgvini.
„Við erum svolítið hvatvísir og fáum hugmyndir sem við framkvæmum án þess að hugsa þær til enda,“ segja þeir og hlægja en síðan fyrsta tækið var keypt þá hafa þeir bætt við sig stærri tækjum og eru núna komnir með öfluga leysiskurðarvél.
Núna fyrir jólin hafa þeir verið að bjóða ýmiss konar jólavöru sem er leysiskorin í bæði akrýlefni og tréplötur. Búnaðinn hafa þeir þó hugsað fyrir listsköpun og að geta skorið út muni úr vönduðum efnum. Meðal jólavöru sem þeir eru að bjóða í dag eru jólasleðar, sem m.a. eru notaðir undir flöskur eða annað, og svo vinsælt flöskudagatal. Dagatalið er uppsett með Malt- og Appelsínflöskum á Bitanum en þolir vel sterkari drykki.
„Við erum bara rétt að læra á búnaðinn. Ætli við séum ekki komnir með 10% þekkingu á því sem hægt er að gera en möguleikarnir eru endalausir í til dæmis útskurði og framleiðslu muna,“ segja Bjarni og Björgvin.
Efnin sem þeir eru að vinna mest með þessa dagana eru akrýlefni eins og plexigler en einnig plötur úr MDF eða HDF, sem er vandaðri útgáfa af MDF-efninu. Þeir hafa verið að endurvinna úr hráefnum sem falla til hjá öðrum framleiðendum og hafa því verið í grænum skrefum.
Bjarni og Björgvin eru í hópum á netinu þar sem leysiskurðarfólk deilir því sem það er að fást við og hvaða efni er verið að vinna með. Þeir segjast vilja komast yfir betri hráefni en þau sé erfitt að nálgast hér á landi. „Við horfum öfundaraugum á félaga okkar erlendis þegar við sjáum þann við sem þeir eru að nota,“ segir þeir bræður sem stefna á að komast t.a.m. yfir rósavið til að skella undir leysirinn. Þá eru þeir einnig með prentara sem getur prentað á ýmiss konar muni. Þá hafa þeir aðgang að úrvali útskurðarteikninga sem er hægt að kaupa fyrir hvert verkefni.
Vörurnar sem þeir eru að framleiða selja þeir í netverslun á slóðinni www.nolon.is og þá má einnig finna á Facebook undir nafninu Helms Forge en faðir þeirra, Sigurður Gústafsson sem nýlega er látinn, bar millinafnið Hjálmar. „Hann er með okkur í anda þegar við erum að bardúsa í framleiðslunni og hlær að og með okkur,“ segja þeir Bjarni og Björgvin í samtali við Víkurfréttir.