„Framlag skólasamfélaga og Uppbyggingarsjóðs á Suðurnesjum ómetanlegt“
Barna- og menntamálaráðherra hefur opnað Málhljóðavaktina – Lærum og leikum með hljóðin.
Um er að ræða fyrsta og eina alíslenska forritið á sviði framburðar íslensku málhljóðanna og hljóðkerfisvitundar til undirbúnings læsi. Fjöldi íslenskra tón- tækni-, teiknara og myndlistarmanna kom að gerð efnisins.
Efnið kom upphaflega út árið 2013 en hefur nú verið endurgert frá grunni með nýjum leikjum og er nú opið á öll tæki. Með nýrri tækni; veflausn fyrir ÖLL snjalltæki og tölvur, er forritið þar með opið öllum einstaklingum sem eru að læra íslensku og kennir þeim að bera íslensku málhljóðin rétt fram. Það er ókeypis fyrir alla!
Innihald Lærum og leikum með hljóðin byggir á viðurkenndum rannsóknum um máltöku og málþróun íslenskra barna og árangur í undirbúningsfærni fyrir læsi.
Bryndís Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur, er höfundur efnisins.
„Ég er afar þakklát fyrir þann stuðning sem skólasamfélög á Suðurnesjum hafa sýnt verkefninu um árabil. Samvinnan hefur verið ómetanleg. Auk þess hefur Uppbyggingarsjóður Suðurnesja stutt vel fjárhagslega við verkefnið, auk framlags okkar hjóna,” segir Bryndís.
Markmiðið með Lærum og leikum með hljóðin er að stuðla að snemmtækri íhlutun í gagnvirku leikjaformi þar sem grunnþættir íslenskunnar eru þjálfaðir, skref fyrir skref, í átt að læsi. Með þessu gagnvirka forriti sem bætir tungumálagetu og framburð er mögulegt að bæta lífsgæði einstaklinga. Hver kannast ekki við athyglina sem dregst að þeim sem segja fak í staðinn fyrir þak, lóla í staðinn fyrir róla, gó í staðinn fyrir skó o.s.frv.
Það er mikill ávinningur að hlúa að íslenskunni strax frá unga aldri.
Samfélagsleg áhrif máltækni eru víðtæk. Sérstaklega með áherslu á leik og þjálfun málhljóðanna frá unga aldri. Þau stuðla að betri félagslegri líðan, betri möguleikum til náms og geta dregið úr kostnaði við talkennslu, sérkennslu, túlkaþjónustu og önnur úrræði.
Bryndís Guðmundsdóttir, höfundur Lærum og leikum með hljóðin, er frumkvöðull í útgáfu barna- og þjálfunarefnis fyrir barnafjölskyldur og skóla. Áhersla er lögð á að grunnfærni í íslensku frá unga aldri stuðlar að jöfnuði allra barna. Bryndís hlaut barnabókarverðlaun Menntaráðs Reykjavíkurborgar árið 2008 fyrir bók sína, Einstök mamma; falleg saga stúlku sem á heyrnarlausa móður. Bryndís var sæmd heiðurskrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2021 fyrir störf sín.
Nýja veflausnin er unnin í samstarfi við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík og Therapy Box; fyrirtækis sem hefur sérhæft sig í útgáfu forrita fyrir einstaklinga með erfiðleika í máli og tjáningu. Hjallastefnuskólar um allt land forprófuðu veflausnina. Fagaðilar á Reykjanesi voru þar í forystu.
Skólar og fjölskyldur forritið frítt inn á laerumogleikum.is