Framandi heimar á þemadögum í FS
Nú standa yfir þemadagar í Fjölbrautaskóla Suðurnesja undir yfirskriftinni „Framandi heimar“. Í stað hefðbundinnar kennslu býðst nemendum að skrá sig á margvíslega fyrirlestra og námskeið tengd þemadögunum. Í morgun mátti sjá nemendur um allan skóla á hinum fjölbreyttustu námskeiðum t.a.m. í magadansi, Taekwondo og framandi matargerð.
Í fyrramálið verða pallborðsumræður frambjóðenda allra stjórnmálaflokkanna um innflytjendamál og þróunaraðstoð. Stjórnandi verður Logi Bergmann Eiðsson og fara umræðurnar fram á sal skólans.
Að umræðum loknum verður sýnd stuttmynd sem nemendur kvikmyndagerðarhóps gerðu um þemadagana. Síðan verður íþróttakeppni milli kennara og nemenda í íþróttahúsinu. Keppt verður í fótbolta, blaki og þreki.
Mynd: Þessir nemendur FS voru á námskeiði í magadansi þegar ljósmyndara bar að garði í morgun.
VF-mynd: elg