Frændurnir og frænkurnar minnistæðust
Skúli Ásgeirsson, eigandi Vökvatengis við Fitjabraut í Njarðvík, fermdist í á hinu merka ári 1968 í Keflavíkurkirkju, en það var séra Björn Jónsson sem fermdi drenginn.„Þegar ég rifja fermingardaginn upp þá er mér minnistæðast, allir gömlu frændurnir og frænkurnar sem ég hafði aldrei séð áður. Ég var voðalega kvíðinn yfir að þurfa að standa upp í kirkjunni“, segir Skúli en hann vill þó ekki viðurkenna að hafa kviðið fyrir altarisgöngunni. „Hún var ekkert mál og messuvínið var mjög gott“, segir Skúli og hlær.Að messu lokinni var farið heim, en móðir mín, Sigrún Sigurðardóttir, var þá búin að útbúa glæsilegt veisluborð og svo var boðið upp á kaffi og tertur á eftir. Ætli það hafi ekki verið um 60-70 manns í veislunni“, segir Skúli.Skúli er snöggur til svars þegar hann er spurður um hver hafi verið uppáhaldsfermingargjöfin hans. „Black og Decker borvélasett sem ég fékk frá mömmu og pabba. Settið er ennþá til en er nú lítið notað.“Tískan árið 1968 var nokkuð sérstæð, en Skúli vill ekki viðurkenna að hafa horft á stelpurnar á þessum aldri og telur sig því ekki geta lýst kvenfata-tískunni svo vel sé. „Ég man nú bara eftir einhverjum túberingum á stelpunum. Ég sjálfur var í dökkum jakkafötum með slaufu og buxurnar voru örugglega útvíðar, þó það sjáist ekki á myndinni.“