Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Frábærir jólatónleikar í Kirkjulundi til styrktar orgelsjóði
Mánudagur 12. desember 2011 kl. 11:42

Frábærir jólatónleikar í Kirkjulundi til styrktar orgelsjóði


Vel á þriðja hundrað manns fjölmenntu í Kirkjulund, safnaðarheimili Keflavíkurkirkjku í gær og hlustuðu á tvenna jólatónleika til styrktar orgelsjóði kirkjunnar. Eftir þrjú ár eða 2015 mun Keflavíkurkirkja fagna eitthundrað ára afmæli og vonast aðstandendur hennar að þá verði hægt að vígja nýtt orgel og hvíla það gamla sem kom frá Austur Þýskalandi á sínum tíma.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kórastarf í Keflavíkurkirkju hefur aldrei verið jafn öflugt og sinnir nú stór hópur fólks þessum þætti innan kirkjunnar auk þess sem smærri kórar og sönghópar hafa orðið til undir stjórn Arnórs Vilbergssonar, organista kirkjunnar. Þessi stóri hópur söng jólalög í kirkjunni í gær en gestir þeirra voru krakkar í kór Holtaskóla í Keflavík. Þar er líka öflugt söngstarf og sungu krakkarnir bæði ein og með kirkjukórnum og gerðu það af stakri prýði undir stjórn Guðbjargar Þórisdóttur. Með söngfólkinu var fagfólk sem allt tengist Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og lék undir söngnum á fiðlur, víólu, klarinett, bassa og trommur að viðbættum píanóleik organistans.
Bítlabærinn stendur svo sannarlega undir nafni sem tónlistarbær því tónleikarnir voru frábærir þar sem jólaandinn sveif yfir vötnum og þeim lauk með því að allir sungu saman Heims um ból.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í Kirkjulundi í gær.

Kór Keflavíkurkirkju og kór Holtaskóla saman í Kirkjulundi.

Arnór Vilbergsson, organisti á píanóinu.

Krakkarnir úr Holtaskóla sungu nokkur lög undir stjórn Guðbjargar Þórisdóttur.

Kór Keflavíkurkirkju söng falleg jólalög.