Frábær óperusýning í Hljómahöllinni
Tvær sýningar Norðuróps á óperunni Eugence Onegin eftir Tschaikovsky í Hljómahöllinni tókust mjög vel. „Er skemmst frá að segja að sýningin í heild var metnaðarfull, valinn maður í hverju rúmi og sviðsmynd og lýsing glæsileg,“ segir Kjartan Már Kjartansson m.a. í umfjöllun sinni fyrir Víkurfréttir um sýninguna.
Óperan er eftir rússneska tónskáldið Pjotr Tschaikovsky við sögu Púskin. Hún fjallar um ástir, vináttu og afbrýði sem endar með einvígi þar sem Onegin drepur vin sinn Lensky. Sagan hefst í sveitasælu og endar á hátíðlegu balli Gremins fursta í St. Pétursborg.
„Söngvararnir voru í misstórum hlutverkum en stóðu sig allir mjög vel og heilt yfir var þetta frábær uppsetning sem staðfestir að aðstandendur sýningarinnar eru áræðið fólk sem óhrætt ræðst í metnaðarfullar, og örugglega kostnaðarsamar, uppsetningar sem þessar. Slíkt framtak verður seint fullþakkað og þurfum við Suðurnesjamenn að standa við bakið á þessum frumkvöðlum og sýna stuðning okkar í verki m.a. með því að mæta vel á svona viðburði,“ segir fyrrverandi tónlistarskólastjóri í Keflavík m.a. í umfjöllun sinni en hún verður birt í heild í prentútgáfu VF á fimmtudaginn.
Sviðsmyndin var skemmtileg í ókláraðri Hljómahöllinni.
Jóhann Friðgeir Valdimarsson sem Lensky og Rósalind Gísladóttir sem Olga.
Seinni hluti sýningarinnar færðist yfir í stóra sal Stapans og þá voru áhorfendur í návígi við leikarana. Ballettdömur frá Bryn Ballett akademíunni voru þátttakendur í sýningunni.