Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Frá stríði til Reykjanesbæjar
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
föstudaginn 18. febrúar 2022 kl. 11:18

Frá stríði til Reykjanesbæjar

Ljiridona Osmani, oftast kölluð Donna, er búsett í Reykjanesbæ. Hún vinnur sem umsjónarkennari í Stapaskóla ásamt því að vera í fullu meistaranámi í náms- og starfsráðgjöf. Donna hefur talað opinberlega um stöðu útlendinga á Íslandi á samfélagsmiðlinum Twitter. Síðla árs 2021 opnaði hún sig um sögu fjölskyldu hennar en þau flúðu Kósóvó í kjölfar Júgóslavíustríðsins.

Donna og fjölskylda hennar fluttu til Íslands árið 2002 eftir erfið ár í Kósóvó. Frændi Donnu var þá búsettur á Íslandi og ákvað að hjálpa þeim að komast til landsins. „Aðstæður okkar voru slæmar úti í Kósóvó eftir stríðið og okkur leið ekki vel. Því ákvað bróðir pabba að reyna að koma okkur til Íslands, sem hann gerði. Við fengum dvalarleyfi og foreldrar mínir fengu atvinnuleyfi þegar við fluttum og byrjuðu þar af leiðandi að vinna.“

Sérhver stígur hefur sína polla

Fyrst um sinn átti fjölskylda Donnu heima á Árskógsströnd og segir hún samfélagið hafa tekið vel á móti þeim. „Við fengum húsnæði, föt, eldhúsílát, húsgögn og allt sem hægt var að fá. Við fengum einnig fullt af hlutum og dóti frá Rauða krossinum og fólkinu í bænum, sem ég er afar þakklát fyrir í dag,“ segir Donna. Þrátt fyrir stuðning og hjálp frá fólki bæjarins fylgdu flutningunum ákveðnar áskoranir. „Fyrir mig var mikil áskorun að fara í skólann og eignast vini. Ég átti erfitt með það þar sem ég skyldi engan og var því mikið ein í frímínútum og þess háttar.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Donna segist hafa verið fljót að læra íslensku vegna sérkennslu sem hún og bróðir hennar fengu í skólanum. „Það var gott fyrir mig og bróðir minn. Við vorum bæði í litlum leik- og grunnskóla og þar var okkur kennt allt sem hægt var að kenna. Ekki bara íslensku, líka einfalda hluti eins og að reima skó,“ segir hún og bætir við: „Þökk sé sérkennslunni var ég fljót að læra íslenskuna og var orðin mjög góð í henni þegar ég byrjaði í 2. bekk. Þá byrjaði ég að eignast vini og varð öruggari bæði í skólanum og samfélaginu í heild sinni.“

Fólkið í Garðinum ekki af verri gerðinni

Árið 2006 fluttu Donna og fjölskylda í Garðinn. Donna segir lífið í Garðinum hafa verið draumi líkast fyrir hana og bróðir hennar. „Fólkið í Garðinum er auðvitað ekki af verri gerðinni, þar var einnig tekið ótrúlega vel á móti okkur. Fyrir mig og bróðir minn var þetta algjör draumur. Í Garðinum voru hellingur af krökkum og þar var hægt að æfa íþróttir. Við vissum varla hvað íþróttir voru áður, þar sem við höfðum ekki tök á því að stunda íþróttir fyrir norðan.“

Donna byrjaði ung að aldri að æfa fótbolta með Víði en skipti yfir í Keflavík eftir 5. flokk vegna þess hve fáar stelpur voru að æfa í Garðinum. „Enn þann dag í dag tel ég mig vera Víðiskonu, þó svo að ég hafi æft lengur með Keflavík.“

Góðar minningar

Donna segist eiga margar góðar minningar úr Garðinum og að fjölskyldan fari reglulega í bíltúr um bæinn. „Allar mínar grunnskólaminningar eru þaðan, ég kynntist yndislegu fólki og eignaðist góða vini sem ég er ennþá í sambandi við.“

Í dag er Donna og fjölskylda hennar búsett í Reykjanesbæ og stundar hún meistaranám við Háskóla Íslands.


FLÚÐUM STRÍÐ

Það tekur á að fylgjast með því sem er að gerast í Kabúl. Að eiga mömmu og pabba sem þurftu að flýja land með mig tveggja ára, þegar Júgóslavíustríðið var, er eitthvað sem ég get ekki ímyndað mér. 

Ég skal segja ykkur smá frá ástandinu á þeim tíma, gerum MJÖG langa sögu stutta. 

Árið er 1999 og erum stödd í Serbíu (erum frá Kósóvó). Karlar með byssur koma inn á heimilið og spyrja „Hver tekur það á sig að vera drepinn á staðnum ef eitthvað finnst sem tengist Kósóvó?“ (T.d. albanski fáninn og bara name it). Pabbi segir: „Ég!“

Þeir finna ekkert því foreldrar mínir voru búnir að grafa alla hluti sem þau áttu í jörðu. Aftur á móti er pabbi tekinn frá mér og mömmu og sáum hann ekki í VIKU. Ég og mamma vorum settar í gám ásamt fleiri konum. Mamma vissi ekki hvort pabbi væri á lífi eða dáinn.

Viku seinna kemur pabbi. Foreldar mínir ákváðu því að reyna að yfirgefa Serbíu og byrjuðu bara að labba. Löbbuðu marga daga í allskonar veðri. Þau sváfu úti með ekkert með sér. Fóru t.a.m. úr sínum fötum og klæddu mig í svo mér yrði ekki kalt.

Allt í einu vorum við komin upp í einhvern bíl sem var fullur af flóttafólki, þessi bíll var á leiðinni upp á flugvöll og við áttum flug til Ástralíu. Erum mætt þangað og áttum heima þar í u.þ.b. fimm mánuði.

Árið er 2000, stríðið búið og fluttum aftur til Kósóvó. Fluttum í fátækrahverfi sem var þarna í litlum bæ og á þessum tíma eignaðist mamma bróður minn. Að eiga tvö lítil börn með jú jú alveg húsaskjól en aftur á móti engan pening og lítinn sem engan mat.

Árið er 2002. Bróðir pabba sem flutti til Íslands 1997 kemur okkur til Íslands. Við fáum dvalarleyfi, hús, ma og pa byrja að vinna, ég og bróðir minn byrjum á leikskóla og bara allt eins og það á að vera – en samt ennþá með engan pening, engin föt, í raun ekkert EN erum flutt.

Árið er 2021. Við eigum pening, eigum hús, eigum bíl, ég er orðin umsjónarkennari! EN það er samt ekki aðalmálið, aðalmálið er að við erum á LÍFI og ég er endalaust þakklát fyrir það og þakklát fyrir alla þá sem hjálpuðu okkur.