Forvarnabréf til foreldra
- grunnskólabarna í Sandgerði, Garði og Vogum.
Forvarnarteymið Sunna sendi frá sér forvarnabréf til allra foreldra grunnskólabarna í Sandgerði, Garði og Vogum nú á dögunum. Tilgangur bréfanna var að vekja athygli á ákveðinum atriðum forvarna sem skipta miklu máli. Minnt var á hve mikilvæg samvera barna og foreldra sé enda talin ein besta forvörnin. „Að eiga gæðastundir saman þarf ekki að kosta mikla fjármuni. Til dæmis komu eftirfarandi hugmyndir frá nemendum 9. bekkjar á forvarnadaginn; spila saman, fara í sund, í útilegu, göngu/fjallgöngu og hafa kósýkvöld,“ segir Rut Sigurðardóttir, frístunda- og forvarnafulltrúi Sandgerðisbæjar.
Þá var fjallað um eftirlit, það að vita hvar barnið er og með hverjum og mikilvægi þess að þekkja vini barna sinna og foreldra þeirra. Einnig var minnt á að fara yfir reiðhjólin á hverju ári og ganga úr skugga um að þau séu í góðu lagi og foreldrar minntir á að reiðhjólahjálmar séu öryggistæki fyrir alla þá sem nota reiðhjól og því ekki síður mikilvægir fyrir fullorðna sem öryggistæki og til að vera góð fyrirmynd.
„Sem foreldrar njótum við þeirra forréttinda og ábyrgðar að leiðbeina ungum einstaklingum og styðja þá út í lífið. Rannsóknir hafa ítrekað leitt í ljós að börnum sem upplifa aðhald, umhyggju og eðlilegt eftirlit foreldra líður betur en ella, þeim gengur betur í skóla og þau eru síður líkleg til að neyta áfengis og annarra vímuefna. Mikilvægt er að veita börnum stuðning við þátttöku í uppbyggilegum verkefnum,“ segir Rut.
Í forvarnateyminu Sunnu eru íþrótta- og æskulýðsfulltrúar sveitafélaganna Garðs, Sandgerðis og Voga, fulltrúar lögreglunnar, fulltrúi barnaverndar, félagsmálastjóri og fulltrúar frá skólunum í sveitarfélögunum þremur.
Í stuttu máli;
• Við hvetjum börnin okkar til uppbyggilegra verkefna.
• Við eigum reglulegar samverustundir með börnunum okkar.
• Við þekkjum vini barna okkar og foreldra þeirra.
• Við fylgjumst með hvað börnin okkar gera og með hverjum þau eru.
• Við stuðlum að því að börnin okkar neyti ekki áfengis og vímuefna.
• Við tryggjum eftirlit með heimapartýjum séu þau leyfð.
• Við erum saman á útihátíðum og öðrum skemmtunum.