Forsetar í Grindavík
Heimsókn Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands og Karolos Papoulias forseta Grikklands og eiginkvenna þeirra til Grindavíkur hepnaðist einstaklega vel í blíðskaparveðri í gær. Heimsóknin hófst í saltfiskverkuninni Vísi þar sem Páll H Pálsson og fjöskylda hans tók á móti þeim og leiddi forsetana og eignkonur þeirra og fylgdarlið í gegnum saltfiskverkunarferlið. Ekki fengu blaðamenn leyfi til að fylgjast með þessum hluta heimsóknarinnar en frú Dorritt Moussaieff forsetafrú mun hafa farið á kostum og vildi prófa flest handtökin. Settist hún meðal annars upp í lyftara og prófaði hann án nokkurra vandræða og einnig stráði hún salti yfir saltfiskinn.
Heimsóknin hélt svo áfram í Saltfisksetri Íslands þar sem börn úr leikskólunum Laut og Króki buðu gestina velkomna með fánum og söng. Ólafur Örn bæjarstjóri tók þá á móti gestunum og fræddi þá um mikilvægi saltfisksins fyrir þjóðarbúið og sagði meðal annars að saltfiskurinn væri ein aðalástæðan fyrir því að Ísland hefði þróast úr því að vera fátækasta ríki Evrópu í að vera eitt það ríkasta.
Hinir tignu gestir fengu því næst leiðsögn um safnið og gat herra Ólafur Ragnar forseti frætt Karolos Papoulias Grikklandsforseta um ýmislegt varðandi saltfiskinn og sagði m.a. frá því þegar hann vann í saltfiski á sínum yngri árum. Að lokum heimsóknarinnar voru gestunum færðar gjafir frá Grindavíkurbæ og Saltfisksetrinu og þökkuðu þeir fyrir sig með gjöfum frá Grikklandsforseta.
Við það tækifæri sagðist Karolos Papoulias Grikklandsforseti vera mjög ánægður með móttökurnar. Fannst honum sérstaklega áhugavert að geta komið beint úr nýjustu tækni í saltfiskverkun inn í gamla tímann og séð hvernig handtökin hafa breyst. Þá fannst honum einnig merkilegt hve vel hafi tekist að varðveita gamla tímann.
Vf-myndir/Þorsteinn Gunnar og Þorgils