Fornbílaklúbburinn vill ekki keyra aðrar götur á Ljósanótt
- Lögreglustjóri getur úðað í sig Candy floss á Ljósanótt, segir formaður fornbílaklúbbsins
Í okkar röðum er ekki vilji fyrir því að skoða það. Ákvörðunin er illa rökstudd og þrátt fyrir aðgerðir okkar þess efnis að afboða komu okkar hefur enginn í Reykjanesbæ komið með neina ásættanlega skýringu og málinu bara verið svarað eins loðið eins og hægt er að svara því. Við viljum að hættan sé útskýrð og rökstudd, en það er ekki vilji fyrir því. Í röðum fornbílamanna er mikil reiði og félagar hafa meira að segja sumir látið þau orð falla að það verði eitthver ár í að fornbílar á vegum félaga muni sjást á götum Reykjanesbæjar, hvort sem það er á ljósanótt eða bara af öðru tilefni. Áhuginn fyrir að heimsækja bæjarfélagið sé enginn. Þessi lögreglustjóri hafi klárað það með einu pennastriki, “ segir Rúnar Sigurjónsson, upplýsingafulltrúi Fornbílaklúbbs Íslands sem staðið hefur að sýningu fornbíla á Ljósanótt undanfarin ár.
Lögreglustjóri gaf út að fornbílarnir fengju ekki að aka niður Hafnargötu á Ljósanótt og sagði öryggisráðstafanir ástæðuna. VF spurði lögreglustjóra hvort það væri í boði fyrir fornbílaklúbbinn að akar aðrar götur og hann sagði það ekkert mál, allar nema Hafnargötu á Ljósanótt. Sú ákvörðun hefði verið tekin í samráði við öryggisnefnd hátíðarinnar.
Forráðamenn fornbílaklúbbsins brugðust strax illa við þessari tilkynningu lögreglustjórans og segir fornbílamenn ekki hafa áhuga á að aka aðrar götur. Og formaðurinn vandar ekki lögreglustjóra kveðjurnar.
„En verði honum að góðu. Hann og hans undirmenn geta núna áhyggjulausir úðað í sig Candy floss í söluskúrum á Ljósanótt í stað þess að vinnan vinnuna sína við að hafa auga með og vera viðstaddir viðburði sem fólki þykja skemmtilegir,“ sagði Rúnar í svari til Víkurfrétta um það hvort það kæmi til greina að aðra aðrar götur en Hafnargötuna á Ljósanótt 2017.