Forláta og frægur herjeppi til sölu á fimm milljónir króna
Tómas J. Knútsson hefur varið um 1000 klukkustundum í að endurgera forláta herjeppa sem notaður var í myndinni Flags of our Fathers. Kvikmyndin var tekin að nokkru leiti í Sandvík á Reykjanesi en við gerð myndarinnar var mikið af leikmunum fluttir til landsins. Tómas Knútsson starfaði við gerð myndarinnar, bæði við undirbúning og einnig við hreinsun á svæðinu eftir að tökuliðið var farið.
Jeppinn sem gerður hefur verið upp var hluti af leikmyndinni og var orðinn illa leikinn, ef þannig má komast að orði, þegar tökum var lokið. Ákveðið var að taka bílinn ekki með til Bandaríkjanna, heldur áskotnaðist Bláa hernum jeppinn með þeirri von að hann gæti orðið fjáröflun fyrir umhverfissamtökin Bláa herinn.
Eins og segir hér að framan hefur Tómas varið um 1000 klukkustundum í að endurgera bílinn og hefur Tómas keypt mikið af upprunalegum varahlutum í jeppann. Jeppinn er nú falur ásamt ýmsum öðrum sýningarmunum fyrir 5 milljónir króna, sem munu renna til Bláa hersins og þess starfs sem þar er unnið. Sú kvöð fylgir reyndar kaupunum að jeppinn skal fara til varðveislu Byggðasafns Reykjanesbæjar.
Magga Hrönn Kjartansdóttir og Tómas J. Knútsson við jeppann góða úr kvikmyndinni Flags of our Fathers.