Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fögur fyrirheit eftir Rúnar Júlíusson í nýrri útfærslu Lifunar
Þriðjudagur 13. janúar 2009 kl. 09:29

Fögur fyrirheit eftir Rúnar Júlíusson í nýrri útfærslu Lifunar



Kvöldið sem Rúnar Júlíusson fékk hjartaáfall 5. desember 2008 var hljómsveitin Lifun nýbúin að spila sína fyrstu tónleika á uppskeruhátíð Geimsteins útgáfunnar á Ránni í Reykjanesbæ. Hljómsveitin Lifun vakti athygli á liðnu sumri þegar hún sendi frá sér lagið Hörku djöfuls fanta ást eftir Björgvin Ívar Baldursson við texta Bjartmars Guðlaugssonar. Björgvin er sonarsonur Rúnars og tónlistarblóðið rennur um æðakerfi hans eins og annarra í ættinni. Lagið vakti verðskuldaða athygli á hljómsveitinni Lifun sem dregur nafn sitt af hinni rómuðu plötu sem Trúbrot sendi frá sér 1971.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að undanförnu hafa meðlimir Lifunar unnið að því að taka upp efni á sína fyrstu breiðskífu sem á að koma út næsta sumar. Rúnar lagði til við sonarson sinn að hann útsetti lagið Fögur fyrirheit og tæki það upp með félögum sínum fyrir þessa plötu. Rúnar samdi lagið og textann 1994 fyrir safnplötuna Innrás: kornflex og kanaúlpur, sem innihélt nær eingöngu nýja tónlist með ungu upprennandi tónlistarfólki og hljómsveitum af Suðurnesjum. Hann hafði nýlega heyrt hljómsveitina spila lagið á æfingu og lagt blessun sína yfir það þegar hann kvaddi þessa jarðvist svo óvænt.

Frumgerð lagsins er að finna á safnplötuþrennunni Söngvar um lífið 1966-2008 sem kom út fyrir jólin. Það er í mun poppaðri útfærslu hjá Lifun en hjá Rúnari á sínum tíma. Með þessu lagi gefur Lifun forsmekkinn að því sem koma skal á nýju plötunni. Lagið var tekið upp í Upptökuheimili Geimsteins og Guðmundur Kristinn Jónsson, sem er betur þekktur sem Kiddi Hjálmur, annaðist hljóðblöndun og hljóðjöfnun á sama stað.

Heyra má lagið á myspace-svæði hljómsveitarinnar:

http://www.myspace.com/lifungerirutfrakeflavik

Þau sem skipa Lifun eru:

Lára Rúnarsdóttir - söngur
Björgvin Ívar Baldursson - gítar
Helgi Rúnar Gunnarsson - gítar
Haraldur Leví Gunnarsson - trommur
Smári Klári – bassi