Fögnum fjölbreytni
5. maí nk. verður haldinn fjölmenningardagur í Reykjanesbæ. Með því að halda sérstakan fjölmenningardag viljum við fagna fjölbreytni í okkar samfélagi og draga fram kosti þess að búa í fjölbreytilegu umhverfi. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að fólk flytur eða jafnvel flýr úr sínu heimalandi og leitar nýs lands til að setjast að í. Noregur hefur orðið val margra Íslendinga í kjölfar efnahagskreppunnar 2008. Fyrir aðra er Ísland nýr valkostur.
Við höfum boðið Sigríði Víðs Jónsdóttur, höfundi bókarinnar Ríkisfang: Ekkert, til að taka þátt og ætlar hún að fjalla um flóttafólk - venjulegt fólk í óvenjulegum aðstæðum. Margir íbúar hafa lagt hönd á plóg við undirbúning fjölmenningardagsins. Serbía, Pólland og Honduras verða kynnt, nemendur og kennarar úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar flytja lög frá ýmsum löndum.
Gómsætar veitingar frá ýmsum löndum og gæðakaffi frá Kaffitári verða í boði í tilefni hátíðarinnar. Sýnt verður barnaefni fyrir þau yngstu, í boði pólska sendiráðsins. Við hvetjum alla bæjarbúa og aðra gesti til að taka þátt í fjölmenningardeginum.
Verið velkomið í Bíósal Duushúsa laugardaginn 5. maí klukkan 14:00