Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Flytur til Fáskrúðsfjarðar ef allt klikkar
Einar ásamt Ara Elíassyni hjá Sporthúsinu með fákinn fagra.
Fimmtudagur 21. ágúst 2014 kl. 13:43

Flytur til Fáskrúðsfjarðar ef allt klikkar

Hefur misst 12 kg á síðasta mánuði

Við sögðum frá Keflvíkingnum Einari Skaftasyni á dögunum en hann ætlar sér í slag við aukakílóin. Markmið Einars er að létta sig og láta um leið gott af sér leiða. Einar hefur sjálfur heitið 1000 krónum til Einstakra barna á hvert kíló sem hann missir fram til 17. janúar á næsta ári. Vinir Einars ætla einnig að leggja málefninu lið og styrkja félagið.

Nú þegar hefur Einar misst 12,3 kg, fituprósentan er farin niður um 4 stig og ummálið minnkað um 40 cm. „Kallinn er að hverfa bara, ekkert orðið eftir að mér,“ segir Einar hinn hressasti þegar blaðamaður heyrði í honum. Einar óskaði eftir reiðhjóli til sölu á facebook síðu sinni fyrr í vikunni en fátt var um svör. Sporthúsið sá aumur á Einari og ákvað að kaupa glæsilegt Trek reiðhjól handa kappanum hjá Erninum svo hann gæti nú komið sér í ræktina til þeirra. Hann segist ætla að nýta sér hjólið góða til þess að skoða Suðurnesin, fara til vinnu og að sjálfsögðu í ræktina.„Mér finnst alveg frábært hjá Sporthúsinu og Erninum að hjálpa mér svona, ég er alveg í skýjunum. Þetta hefur gengið alveg framar vonum en það er góður hópur sem styður við bakið á mér,“ bætir Einar við en hann vill sjá sem flesta styrkja Einstök börn sem er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa, jafnvel ógreinda sjúkdóma eða skerðingar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Einar skorar sérstaklega á fyrirtæki á Suðurnesjum að styrkja málefnið. Pressan er töluverð á Einari enda hefur hann komið mikið fram í fjölmiðlum vegna átaksins. „Ef ég stenst þetta ekki þá verð ég líklega að flytja til Fáskrúðsfjarðar,“ segir hann og hlær dátt. Pressan hjálpar honum þó mikið og ýtir við honum að hans sögn.

Þeir sem hafa áhuga á að styrkja Einar og Einstök börn, má hafa samband við Friðrik Bergmannsson í vefpóstinum  [email protected]