Flytja lög sem mótuðu þá í æsku
Söngvarinn Valdimar og gítarleikarinn Örn með tónleika í Frumleikhúsinu í kvöld.
„Við ætlum að gera þetta eins stórt og mögulegt er miðað við að vera bara tveir og með einn gítar. Baritóngítarinn er með fullt af effektum og hljóðum sem gera stórt og mikið sánd. Það passar vel við stóra og mikla rödd,“ segir stórsöngvarinn Valdimar Guðmundsson, en hann ætlar ásamt vini sínum, Erni Eldjárn, að halda tónleika í Frumleikhúsinu í kvöld. Nálgast má viðburðinn hér.
Með svipaðan tónlistarsmekk
Þeir félagar hafa spilað mikið saman síðan þeir kynntust í tónsmíðum í Listaháskóla Íslands árið 2007. „Svo kom upp að Mugison (Örn Elías Guðmundsson) hringdi í mig og spurði hvort það væri hægt að fá mig og gítarleikara til að koma og spila í Ísafjarðarkirkju á föstudagskvöldinu á hátíðinni Aldrei fór ég suður. Ég taldi þá bara sniðugast að fá Örn með í það og við tækjum prógramm með lögum sem við fílum. Við spiluðum fimm lög á Ísafirði og bættum svo við 11 - 12 lögum sem einnig verða spiluð í kvöld,“ segir Valdimar og Örn bætir við: „Við ákváðum að velja lög sem hafa það sameiginlegt að hafa mótað okkur að einhverju leyti og komumst að því að við erum með svipaðan mótunarmúsiksmekk.“ „Fyrir utan hip-hop-ið, ég er meira í því,“ segir Valdimar. Aðallega verði um að ræða tónlist frá 10. áratug síðustu aldar og fyrsta áratug þessarar aldar, en finna megi þó eitt og eitt eldra. Meðal efnis á tónleikunum verða lög með Megasi, Bob Dylan, Radiohead og Arcade. „Hellingur af góðu stöffi. Tónlist sem við eigum miklar rætur til.“
Frumsamið efni í pípunum
Valdimar segist hafa upphaflega fengið Örn með sér í Eldar verkefnið sem hann og Björgvin Ívar Baldursson eru enn saman í. Annars er Örn m.a. í hljómsveitnni Tilbury með Kristni Evertssyni sem einnig er í Valdimar. „Það tengjast einhvern veginn allir í íslenska tónlistarbransanum og allir hafa unnið með öllum. Við Örn stefnum að því að gera einhvern tímann saman verkefni sem kemur í ljós síðar. Menn eru að klára ýmis verkefni og þegar þeim lýkur er aldrei að vita nema úr verði samstarf með frumsamdri tónlist. Við höfum í raun stefnt að því lengi,“ segir Valdimar. Örn leggur áherslu á að þá muni kveða við nýjan tón hjá þeim og þeir muni fara meira út í elektróníkina. „En svo veit maður aldrei hvað gerist þegar maður sest niður til að semja. Við viljum aðallega að ögra okkur og gera eitthvað sem við erum ekki vanir að gera.“ Valdimar tekur undir það og bæti við að skemmtilegast sé að vera á dálítið ókunnugum stað. Það sé gott fyrir þroskann og sálina. „Þegar maður er kominn á einhvern þægilegan áfangastað þá er þetta bara einhvern veginn búið. Þar eitthvað til að rífa sig framúr á morgnana.“
Tónleikarnir í Frumleikhúsinu verða um tveir tímar með hléi. Félagarnir hvetja alla til að mæta því um verði að ræða skemmtilegt kvöld, frekar rólegri tónlist en þægilegri til að fagna sumrinu.