Flutti 15 ára að heiman og til Íslands
Francisco Valladares Serrano var aðeins 15 ára gamall þegar hann flutti að heiman frá fjölskyldunni sinni í Hondúras og hélt á vit ævintýranna til Íslands. Hann flutti til frænda síns sem þá bjó á Flúðum og hóf nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Síðan eru liðin níu ár og nú er Valladares fjölskyldan sameinuð á ný því að foreldrar hans og bróðir fluttu til Íslands fyrir fjórum árum og saman reka þau veitingastaðinn Fernando´s við Hafnargötu í Reykjanesbæ. Eftir að Francisco lauk stúdentsprófi frá FSu hóf hann nám í tæknifræði við Keili á Ásbrú og þannig lá leið hans til Suðurnesja.
Er öruggur á Íslandi
,,Að bera Hondúras og Íslandi saman er í rauninni eins og svart og hvítt,” segir Francisco, aðspurður um viðbrigðin við að flytja frá Mið-Ameríkuríkinu Hondúras og til Íslands. ,,Það er mjög heitt í Hondúras en snjór og kuldi hér. Þetta var svolítið erfitt fyrst því að ég talaði ekki íslensku en hafði verið í enskuskóla í Hondúras og gat því bjargað mér á ensku. Í FSu eignaðist ég vini frá Kólumbíu og Chile og við gátum talað saman á spænsku og það hjálpaði mér mikið. Ég kunni þó strax vel mig á Íslandi og finnst fínt hvað það er allt rólegt hérna, miðið við í Hondúras þar sem fólksfjöldinn er miklu meiri.”
Þá segir Francisco mikið um glæpi í Hondúras og því öruggara fyrir hann að búa á Íslandi. Það hafi þó tekið nokkur ár fyrir fjölskylduna hans að flytja til Íslands því að þar ráku foreldrar hans fyrirtæki sem þau þurftu að selja áður en þau fluttu.
Þegar Francisco var um tvítugt fluttu foreldrar hans og yngri bróðir svo loksins til Íslands og segir hann það hafa verið mjög gott að fá þau til sín. ,,Ég fór eins oft og ég gat til Hondúras að hitta þau en það var dýrt svo það var miklu betri lausn að þau flyttu hingað.”
Sósan er fjölskylduleyndarmál
Þau fjölskylduna hafði lengi dreymt um að opna saman veitingastað og létu verða af því í byrjun síðasta árs eftir að þau fundu hentugt húsnæði við Hafnargötu í Reykjanesbæ. Húsnæðið leigja þau af Bóa, eiganda Kaffi Duus, og segir Francisco þau vera honum mjög þakklát því að hann hafi hjálpað þeim mikið við að láta drauminn um fjölskylduveitingastað rætast.
Francisco segir reksturinn hafa gengið vonum framar. Hann átti eftir tvær annir í tæknifræðinni við Keili þegar þau opnuðu staðinn en ákvað fljótlega að gera hlé á náminu til að geta einbeitt sér að matseldinni og öðrum rekstri á Fernando´s. Þó svo að þau komi öll frá Hondúras er ekki neinn réttur þaðan á matseðlinum, heldur eru flestir réttirnir ítalskir og segir Francisco ítalskan mat mjög vinsælan í Hondúras.
Þau fjölskyldan leggja áherslu á að gera eins mikið og hægt er frá grunni og eru sannfærð um að maturinn verði miklu betri þannig. ,,Við viljum að maturinn okkar sé eins og heimagerður en ekki með neinum verksmiðjukeim. Við blöndum kryddin sjálf, gerum eftirréttina frá grunni og sósan á pítsurnar okkar er fjölskylduleyndarmál. Mamma bjó uppskriftina til en það var svolítið snúið að finna rétta hráefnið í hana hérna á Íslandi en hafðist fyrir rest. Við fundum að lokum hráefni sem er mjög líkt því sem við þurftum.”
Francisco flutti til frænda síns á Flúðum þegar hann var 16 ára. Nokkrum árum fluttu svo foreldrar hans og yngri bróðir til Íslands. Með þeim á myndinni eru Rúna, eiginkona Francisco og Magnea, unnusta Fernando yngri.
Á dögunum settu þau saman nýjan matseðil og segja þau það hafa verið töluverða þolinmæðisvinnu þar sem þau voru ekki öll sammála um það hvernig hann ætti að vera. ,,Það er stundum erfitt þegar fjölskyldan er saman öllum stundum í vinnunni og við verðum alveg þreytt á hvort öðru,” segir Francisco og brosir. Þau eru þó ánægð með að vinna saman enda gengur yfirleitt vel. Claudia, mamma Francisco, hefur yfirumsjón með eldhúsinu á Fernando´s og eldar nær allan mat fyrir utan pítsurnar sem pítsubakari eldar. Pabbi hans, Francisco eldri, sér um að panta inn hráefni og aðstoðar í eldhúsinu. Veitingastaðurinn er nefndur eftir yngri bróður Francisco, honum Fernando. Hann stundar nám í húsasmíði við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og tekur reglulega vaktir sem þjónn á fjölskylduveitingastaðnum. Francisco er giftur Rúnu Björk Valladares Einarsdóttur og eiga þau von á sínu fyrsta barni saman í lok maí en fyrir á hún eina dóttur. Unnusta Fernando heitir Magnea og hafa þær, eins og aðrir í fjölskyldunni tekið virkan þátt í rekstri á fjölskyldufyrirtækinu.
Eru með sterkustu pítsu landsins
Einn af vinsælustu réttunum á Fernando´s er Lava pítsa sem Francisco segir sennilega sterkustu pítsu á Íslandi. ,,Á henni er okkar fræga Lava sósa. Það er heimatilbúin chili sósa. Það hefur komið fyrir að fólk eigi erfitt með að ná andanum eftir eina Lava pítsu og þá bjóðum við því upp á íspinna til að kæla sig niður. Við aðvörum þó alla sem panta sér þessa.”
Á dögunum stækkaði fjölskyldan staðinn og er nú komin með annan sal eftir að hafa rifið niður íbúð sem var tengd við staðinn. ,,Ég finn að sumarið er að koma því það eru svo margir hópar búnir að panta hjá okkur, bæði ferðamenn, vina- og vinnuhópar. Það er eiginlega alveg brjálað að gera en það er nú bara lúxusvandamál sem við leysum enda höfum við verið mjög heppinn að getað ráðið til okkar hóp af góðu fólki.”
Fernando stundar nám í húsasmíði við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og þjónar þess á milli.