Fluguhnýtingar róa taugarnar
Fluguhnýtingar er vinsælt tómstundagaman hjá stórum hópi stangveiðimanna. Einn þeirra sem það stundar er Júlíus Gunnlaugsson í Keflavík en hann hefur nú sett upp litla verslun með fluguhnýtingarefni í bílskúrnum heima hjá sér. Hann hefur stundað stangveiði í mörg ár en kynntist fluguveiðinni fyrir þremur árum og heillaðist svo gjörsamlega að önnur veiðimennska hefur ekki komist að. Veiðir hvorki á spún eða maðk lengur.
Skapandi og skemmtilegt
„Ég keypti flugustöng af kunningja mínum fyrir þremur árum og hnýtingargræju með. Er eiginlega búinn að hnýta meira en veiða síðan þá. Maður algjörlega datt í hnýtingarnar þegar ég fann hvað þær eru skapandi og skemmtilegar,“ segir Júlli.
Júlli hefur að undanförnu unnið að uppsetningu lítillar verslunar með fluguhnýtingarefni í einu horni bílskúrsins við heimili hans að Sólvallagötu 6 í Keflavík. Þar er jafnframt hans eigin vinnuaðstaða til að stunda áhugamálið.
„Hann er nokkuð stór hópurinn sem stundar þetta hér suðurfrá. Við hittumst reglulega, hnýtum flugur, fáum okkur kaffi og skiptumst á góðum ráðum. Hins vegar hefur alveg vantað verslun með þetta efni hér. Menn hafa því þurft að aka til Reykjavíkur til að kaupa smotterí fyrir 700 kall með helmingi meiri bensínkostnaði jafnvel. Ég veit að hér er líka mikið af laumuhnýturum, þ.e. mönnum sem eru að stunda þetta sér til ánægju utan eiginlegs félagsskapar, þannig að ég taldi vel grundvöll fyrir því að setja upp litla búð hér með því helsta,“ svarar Júlíus aðspurður um tilurð verslunarinnar, sem fengið hefur nafnið Flugukofinn.
Síðdegisopnun í skúrnum
„Ég keyri þetta á engri yfirbyggingu og lítilli álagningu þannig að ég kem til með að bjóða þetta ódýrara en í Reykjavík. Einnig ætla ég að selja smærri og hagkvæmari einingar þannig að menn sitji ekki uppi með fullar skúffur af efni sem þeirr klára aldrei,“ segir Júlli. Flugukofinn verður opinn hluta úr degi síðdegis milli kl. 18 og 20 eða jafnvel lengur ef Júlli er í skúrnum að hnýta. Einnig geta viðskiptavinir hringt í Júlla ef þeir þurfa þjónustu. „Ég ætla mér ekkert að lifa á þessu, er eingöngu að hugsa þetta sem tómstundagaman og um leið vettvang til að fá menn í kaffi, spjall og pælingar.“
Vísindalegar pælingar
Júlli segir Engilbert Jenssen vera hans helsta mentor í fluguhnýtingunum, en hann mun vera einn mesti fluguhnýtari landsins. „Hann býr yfir gríðarlegri þekkingu sem hann hefur gaman af að miðla til annarra. Það eru nefnilega heilmiklar, vísindalegar pælingar á bak við þetta. Fluga getur lúkkað flott en það er alls ekki víst að hún virki. Galdurinn er að búa til flugu þar sem útlit, þyngd og stærðarhlutföll smella saman þannig að hún virki með tilliti til þess hvað þú ert að reyna að veiða. Berti er með þetta allt á hreinu og ég reyni að nýta mér þessa þekkingu. Við stefnum á að fá hann hingað suður með námskeið í vetur,“ segir Júlli.
Hann segir menn yfirleitt fara eftir fyrirfram þekktum uppskriftum en þó séu margir sem spili þetta af fingrum fram og hafi gaman af ýmiskonar tilraunastarfsemi.
-En eru menn ekkert að lúra á leyndarmálum í þessu?
„Jújú, þeir eru til líka en ekki margir sem betur fer“.
Róar taugarnar og tæmir hugann
Hann segir fluguhnýtingar hafa aukist í kreppunni. Bæði hafi menn meiri tíma en áður til að stunda þetta auk þess sem þær virka afar róandi. „Ég veit ekkert betra til að róa taugarnar eftir annasaman og erfiðan dag. Eftir tvær til þrjár flugur er maður orðinn alveg slakur og búinn að tæma hugann. Maður er ekkert að hugsa um neitt annað á meðan,“ segir Júlli í Flugukofanum.
Texti og myndir: Ellert Grétarsson