Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Flugmaður hjá WOW kveikti gamlan æskudraum um flugið
Sigurður Vignir Guðmundsson
Sunnudagur 20. júní 2021 kl. 06:20

Flugmaður hjá WOW kveikti gamlan æskudraum um flugið

Flugakademía Íslands brautskráði 32 atvinnuflugmenn síðasta föstudag en þetta er fyrsta útskrift skólans undir þessu heiti eftir að Flugakademía Keilis og Flugskóli Íslands sameinuðust á síðasta ári. Sigurður Vignir Guðmundsson er einn þeirra sem útskrifuðust og hélt hann ræðu fyrir hönd útskriftarnema Flugakademíu. Sigurður hlaut einnig verðlaun fyrir eftirtektarverða þrautseigju og fékk gjafabréf frá True Flight Training Iceland að gjöf.

Sigurður Vignir er einn fjölmargra sem hafa unnið á flugvellinum og heillast af fluginu. Árið 2014 líður líklega seint úr minni Sigurðar Vignis en hann lenti í tveimur vinnuslysum þetta ár og aðeins með nokkurra mánaða millibili. Í slysinu á Keflavíkurflugvelli starfaði Sigurður Vignir sem hlaðmaður hjá IGS þegar hann féll úr farangurslest flugvélar. Í viðtali við Víkurfréttir fyrir síðustu jól var hann fenginn til að rifja upp slysið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Nei, það er svo skrítið að ég man ekkert of vel atburðina frá hádegi þennan dag sem ég lenti í slysinu og næstu viku á eftir. Það er bara næstum tómt minnið en ég lenti í slysinu eftir kaffipásu klukkan fjögur um daginn. Ég man eitthvað slitrótt eftir því að ég var uppi í farangurslest á flugvél sem var nýlent en þá er oft frost og bleyta inni í lest. Ég er að ná í cargo-trébretti og er að draga það út með mér og ætla að stíga út á færibandið og hlýt að hafa dottið vegna hálk­unnar. Ég datt aftur fyrir mig og skall beint niður á jörðina en man ekkert þegar þetta gerðist og þar til ég vakna næsta dag á sjúkrahúsi í Reykjavík. Þar situr mamma við rúmið mitt og hún segir mér þegar ég spyr hana hvað hafi gerst að ég hafi lent í vinnuslysi. Ég svona hálfbrosi til hennar og svo loka ég augunum aftur og steinsofna. Ég fékk svo að vita að ég hafði fengið þriðja stigs heilahristing, einnig heilablæðingu og mar á heilann.“

Kraftaverk að ekki fór verr

Sigurður Vignir var í raun ótrúlega heppinn hversu vel fór því hann hefði jú getað lamast eða orðið heilaskaddaður eftir slysið en strákurinn reif sig á fætur með góðra manna hjálp. Það skal tekið fram að engir hjálmar voru á höfði starfsmanna í hlaðdeild IGS á þessum tíma.

Eftir á að hyggja er í rauninni kraftaverk að Sigurður Vignir skuli vera á lífi eftir svona alvarlega áverka en röð atburða þennan örlagaríka dag gerði það að verkum að hann lifði. Samstarfsfélagi hans hjá hlaðdeild IGS kom að honum þar sem hann lá en hann er björgunarsveitarmaður og vissi nákvæmlega hvernig átti að bregðast við. Hann setti Sigga strax í læsta hliðarlegu. Það var líka tilviljun að sjúkrabíll var einnig staddur innan flugvallarsvæðisins þegar þetta gerðist en hann var að bíða eftir flugvél sem var að koma til lendingar með veikan farþega. Örlögin gripu svo sannarlega í taumana því það mátti ekki tæpara standa með Sigurð Vigni sem fór með þessum sama sjúkrabíl strax undir læknishendur á bráðadeild í Reykjavík.

Það kemur uppsveifla aftur

Víkurfréttir hittu Sigurð Vigni aftur að máli síðasta föstudag eftir útskriftina úr flugnáminu. Þar bar á góma að ekki væri hægt að segja að framtíð flugsins hafi ekki verið björt í kórónuveirufaraldrinum en auðvitað væri fólk að horfa fram á veginn.

„Það eru niðursveiflur og uppsveiflur í flestu og vonandi er Covid að enda eða líða hjá, þannig að það kemur uppsveifla aftur, þannig að það er jákvæð og björt framtíð í því.“

– Hvernig gekk svo í náminu og hvernig var það?

„Þetta nám er strembið. Það þarf þrautseigju og maður var alltaf að læra. Ég held að ég hafi farið í gegnum þetta á þrautseigju og stóð mig með prýði að mínu mati alla vega.“

– Nú tekur við flug þar sem þú þarft að safna þér tímum. Hvernig lítur það út?

„Bara mjög vel og vonandi verður gott veður í sumar þannig að maður geti flogið eins mikið og hægt er. Ég er mjög spenntur fyrir sumrinu.“

– Við getum sagt að kófinu sé að ljúka og útlitið betra með flug.

„Já, miklu betur. Flugfélög eru byrjuð að ráða inn flugþjóna, flugfreyjur og flugmenn sem er mjög jákvætt fyrir fluggeirann í heild sinni.“

– Áttu þér drauma í fluginu?

„Þegar fólk byrjar í þessu flugnámi þá byrja örugglega allir með Ice­landair efst á listanum hjá sér. Ég vil hafa allt opið og sjá hvert námið getur farið með mig.“

– Þú átt ekki mjög góðar minningar frá Keflavíkurflugvelli eftir að þú lentir í alvarlegu slysi sem hlaðmaður hjá Icelandair árið 2014 og öðru slysi nokkrum mánuðum síðar. Nú þurfið þið að gangast undir heilsufarspróf sem flugmenn. Hvernig tæklaðir þú þetta eftir slysin?

„Eftir að ég lenti í fyrra slysinu sem hlaðmaður á Keflavíkurflugvelli þá tók við strembið verkefni þar sem ég þurfti hreinlega að hreyfa mig og ná upp allri skynjun í lappirnar á mér aftur og læra að ganga upp á nýtt. Það var erfitt að vera 21 árs og þurfa að gera það. Ég hef alltaf verið jákvæður og aldrei gefist upp. Ég náði mér vel upp aftur og er í dag eins og ég hafi aldrei lent í neinu.“

– Það er vel hægt að halda áfram þó svo hlutirnir séu stundum svolítið svartir?

„Já, ég hef alltaf verið jákvæður einstaklingur og trúi því að ef þú ert jákvæð og góð manneskja þá gerist góðir hlutir fyrir þig. Ég hef alltaf verið þannig og er heppinn að eiga góða að sem hjálpuðu mér í gegnum þetta líka.“

Tók sig vel út í flugmannsbúningnum

– Rétt eftir að þú slasaðir þig sem hleðslumaður hjá IGS, þá varstu kannski ekki að ímynda þér að þú ættir eftir að vera flugmaður?

„Nei, það var það síðasta sem ég hugsaði um þá. Ég var mikið í körfunni hjá Keflavík og það var það sem mig langaði að gera. Svo kom upp atvik þegar ég var að vinna í öryggisstjórnstöð á Keflavíkurflugvelli þegar ég sá einn mann sem ég þekki vel sem var flugmaður hjá WOW. Ég hugsaði þegar ég sá hann að hann tæki sig vel út í flugmannsbúningnum og mig langaði að gera þetta. Þá komu þessir draumar, sem ég var með sem ungur maður, að vera flugmaður aftur.“

– Flugumhverfið er hér á Suðurnesjum.

„Já og ég held að allir sem fara í flugnám eða annað flugtengt hafi verið að vinna á flugvellinum á einhverjum tímapunkti.“

– Og þú sérð þig fyrir þér í háloftunum innan skamms?

„Já, bara vonandi sem fyrst. Nú er bara að klára þetta verklega og vonandi fer maður í loftið sem fyrst.“

– Hvað er langt í að þú getir sótt um starf hjá flugfélögum?

„Vonandi bara snemma á næsta ári ef ég er heppinn, annars ætti að vera uppsveifla í þessu næstu tvö árin, þannig að ég er góður í tíma. Að fá starf hjá Icelandair eru ákveðið lottó en það eru ýmis störf úti í heimi og hjá minni flugfélögum sem eru vonandi að losna fljótlega, þannig að maður bíður og vonar.“