Flottustu fötin koma frá ferðaglöðum Suðurnesjamönnum
„Langbestu og flottustu fötin koma frá Suðurnesjum á landsvísu í verslanir Rauða krossins segjum við sem vinnum hérna. Skýringin er kannski sú að fólk af þessu svæði er duglegt að ferðast til útlanda og kaupa sér föt. Hingað fáum við fullt af fatnaði sem sumt er alveg ónotað,“ segir Anna Helga Gylfadóttir, verkefnastjóri og sjálfskipaður stílisti, fataverslunar Rauða krossins í Reykjanesbæ.
Við litum inn í Rauða krossbúðina á Smiðjuvöllum við Iðavelli í Keflavík en þar gefur að líta margt forvitnilegra muna frá ýmsum tímabilum, hluti sem stillt hefur verið upp í hillu, gestum og gangandi til sýnis.
Þóranna Gunnlaugsdóttir og Jóhann Björgólfsson starfa við flokkun hjá Rauða Krossinum.
Notað og nýtt
„Ég er búin að vera tína til fullt af gömlu dóti sem hefur borist okkur og sumt kemur úr einkasafni mínu en ég safna allskonar hlutum. Okkur langaði að leyfa fólki að sjá þessa hluti en margir þeirra kalla fram bros því það sem þótti rosa flott einu sinni er frekar hallærislegt í dag. Ég undirbjó þessa sýningu sem fær að standa eitthvað áfram hjá okkur. Hér í búðinni seljum við fatnað, skó og fylgihluti handa konum, körlum og börnum. Einnig erum við með sængurföt, dúka og gardínur. Allt er þetta notað en sumt er ónotað og kemur hingað jafnvel með merkimiðanum ennþá á flíkinni,“ segir Anna Helga.
Rauða krossbúðirnar eru mikilvægur hlekkur í fjáröflun félagsins. Það er skemmtilegt að gramsa í hillunum þarna og skoða fataslárnar í búðinni. Fullt af forvitnilegu dóti innan um.
Konuhópar velkomnir
Anna Helga er einnig stílisti búðarinnar og segist vilja bjóða vinkonuhópa velkomna, stutt er síðan hún var einmitt með einn slíkan í heimsókn. „Mig langar að bjóða kvennahópum að panta tíma hjá okkur ef þær vilja eiga skemmtilega samverustund hérna. Þær geta komið hingað og mátað saman. Það skapar alltaf góða stemningu þegar þær eru að prófa ýmislegt fyrir framan hver aðra. Þá er einnig mikið hlegið og sumar fara út með flíkur sem hitta í mark. Ég var með helgaropnun fyrir stuttu og hingað kom fullt af fólki sem var að uppgötva hvað það er mikið til af fínum fatnaði hjá okkur. Umhverfisvitund fólks er að aukast og eitt af því sem er umhverfisvænt er að láta fötin ganga áfram til næstu manneskju. Við erum til dæmis að fá inn konur sem hefðu aldrei keypt sér notuð föt áður en vegna breyttra tíma þá kaupa þær notað í dag. Sjálf klæðist ég oft notuðum fötum og fæ hrós vegna þess hvað þetta eða hitt er smart. Það er fullt til af fínum fatnaði hjá okkur. Það er einnig margt furðulegt til en sumar koma hingað því það er ljótupeysudagur í vinnunni eða þær vantar einhver hallærisleg föt út af einhverju tilefni. Við eigum til allskonar fatnað. Ef fólk hefur samband með fyrirvara og lætur okkur vita þá getum við útvegað ýmislegt sniðugt. Verðlag er sanngjarnt í búðinni,“ segir Anna Helga.
Rauða krossbúðin er með opið miðvikudaga og fimmtudaga frá klukkan 13 til 17. Einnig má panta fyrir vinkonuhópa utan venjulegs opnunartíma.