Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Flottir vortónleikar sextugs Karlakórs Keflavíkur
Kórinn flutti 19 lög á tónleikunum í Ytri-Njarðvíkurkirkju.
Þriðjudagur 14. maí 2013 kl. 10:28

Flottir vortónleikar sextugs Karlakórs Keflavíkur

Halda á vit ævintýra í Rússlandi í sumar.

Karlakór Keflavíkur hélt fyrri tónleika sína í Ytri-Njarðvíkurkirkju í gær að viðstöddu fjölmenni. Kórinn fagnar 60 ára afmæli sínu síðar á árinu og af því tilefni heldur kórinn á vit ævintýra í Rússlandi í sumar.

Karlakórinn er einn af fjölmörgum vorboðum en hann heldur jafnan tónleika þá og í ár var engin undantekning á því. Kórinn flutti nítján lög undir stjórn Helgu Bryndísar Magnúsdóttur en undirleikari var fyrrum stjórnandi kórsins, Vilberg Viggósson.

Tónleikagestir urðu ekki fyrir vonbrigðum með frammistöðu kórsins á þessum tónleikum en alls flutti hann 19 lög, mörg þekkt en einnig minna þekkt lög. Eins og alltaf slá þekktari lögin betur í gegn og það mátti sjá og heyra þegar kórinn söng lög eins og „Á Sprengisandi“, „Suðurnesjamenn“ og „Vor í Vaglaskógi“. Eitt lag þótti undirrituðum þó eitt besta lag tónleikanna en það var lagið „Ást“ eftir Njarðvíkinginn Magnús Sigmundsson og ljóð Sigurðar Norðdal. Rannheiður Gröndal söng þetta lag ekki alls fyrir löngu á plötu og það hefur ómað í útvarpi og víðar mjög mikið á undanförnum árum. Lagið er frábært og kórinn flutti það sérlega skemmtilega og hefur greinilega æft það vel í vetur.

Það er því óhætt að hvetja Suðurnesjamenn til að fara á seinni tónleikana sem verða í Ytri-Njarðvíkurkirkju annað kvöld, miðvikudag og hlusta á flottan sextugan karlakór.

Páll Ketilsson.



Steinn Erlingsson og Kristján Þorgils Guðjónsson sungu báðir einsöng á tónleikunum en þeir voru líka í kvartett með Ingólfi Ólafssyni og Þorvarði Guðmundssyni en þeir eru hér fjórir saman á mynd.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024